Ríki íslams lýsir yfir ábyrgð

Íranskir hermenn fyrir utan þinghúsið.
Íranskir hermenn fyrir utan þinghúsið. AFP

Ríki íslams hefur lýst ábyrgð á hendur sér vegna árásanna á Íran í morgun þegar að minnsta kosti fimm manneskjur voru drepnar í þinghúsi landsins og í grafhýsi trúarleiðtogans Ruhollah Khomeini. Þetta er í fyrsta sinn sem hryðjuverkasamtökin segjast ábyrg fyrir árás í Íran. 

„Vígamenn frá Ríki íslams réðust á grafhýsi Khomeini og þinghúsið í Teheran,“ sagði í yfirlýsingu frá hryðjuverkasamtökunum.

Írönsk stjórn­völd hafa bar­ist hart gegn Ríki íslams og öðrum upp­reisn­ar­hóp­um í Sýr­landi og Írak.

Maður heldur á byssu í skrifstofuhúsnæði íranska þinghússins.
Maður heldur á byssu í skrifstofuhúsnæði íranska þinghússins. AFP

Tugir særðust einnig í árásunum og héldu skotbardagar áfram í nokkrar klukkustundir eftir að þær hófust.

Öryggisvörður og önnur manneskja voru drepin þegar fjórir byssumenn ruddust inn í þinghúsið í Teheran með riffla og skammbyssu að vopni.

Einn árásarmannanna sprengdi sjálfan sig í loft upp á fjórðu hæð skrifstofubyggingar þinghússins þar sem lögreglumenn höfðu beðið átekta í nokkrar klukkustundir.

Íranska þinghúsið.
Íranska þinghúsið. AFP

Garðyrkjumaður lést og þó nokkrir til viðbótar særðust þegar árásarmaður fór inn í grafhýsið, sem er um 20 kílómetrum frá þinghúsinu.

Tveir árásarmenn, þar af ein kona, sprengdu sig í loft upp inni í grafhýsinu, samkvæmt írönskum fjölmiðlum.

Neyðarþjónusta Írans sagði að 33 hefðu særst í árásunum og að tveir hefðu dáið af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Íranskur lögreglumaður (til vinstri) heldur á vopni skammt frá þinghúsinu.
Íranskur lögreglumaður (til vinstri) heldur á vopni skammt frá þinghúsinu. AFP

Þingfundur fór fram þegar árásirnar voru gerðar og héldu þingmenn áfram störfum þrátt fyrir að greint hefði verið frá skotbardögum í skrifstofuhúsnæði þinghússins. Einnig voru leyniskyttur á nærliggjandi húsþökum.

Þingmaðurinn Ali Larijani gerði lítið úr árásunum og sagði þær vera „smávægilegt mál“ og að öryggissveitir væru að takast á við þær

Grafhýsi Khomeini.
Grafhýsi Khomeini. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert