Skotárás í þinghúsi Írans

Þinghúsið í Íran.
Þinghúsið í Íran. Ljósmynd/Wikipedia

Að minnsta kosti einn byssumaður hóf skothríð inni í þinghúsi Írans í höfuðborginni Teheran og særði þó nokkrar manneskjur.

Sumar fréttastofur greina frá því að einn maður hafi verið að verki en aðrar segja að þrír menn hafi verið í þinghúsinu vopnaðir rifflum og skammbyssu.

Samkvæmt fréttastofunum ISNA og Fars hafa þrír verið skotnir, þar á meðal einn öryggisvörður.

AFP-fréttastofan greinir einnig frá því að vopnaður maður hafi ruðst inn í grafhýsi Ruhollah Khomeini, fyrrverandi trúarleiðtoga Írans, og skotið þar nokkrar manneskjur.

Maðurinn er sagður hafa verið inni í grafhýsinu á sama tíma og skotárás fór fram í þinghúsi Írans, um 20 kílómetra í burtu.

Vitni sagði við Reuters-fréttastofuna að árásinni í þinghúsinu væri lokið.

Írönsk stjórnvöld hafa barist hart gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og öðrum uppreisnarhópum í Sýrlandi og Írak.

Uppfært kl. 7.00:

AFP-fréttastofan greinir frá því að sjálfsmorðsárás hafi verið gerð inni í grafhýsi Khomeini. 

ILNA-fréttastofan segir að fimm manns hafi særst í skotárás inni í grafhýsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert