Tveir látnir eftir tvær árásir

Þinghúsið í Tehran.
Þinghúsið í Tehran. AFP

Tveir eru látnir eftir að vopnaðir menn ruddust inn í þinghúsið í Teheran, höfuðborg Írans, og inn í grafhýsi Ruhollah Khomeini, fyrrverandi trúarleiðtoga Írans. Íranskir fjölmiðlar greina frá því að að minnsta kosti ein sjálfsmorðsárás hafi verið gerð.

Öryggisvörður var drepinn í þinghúsinu og garðyrkjumaður var drepinn þegar árásarmenn réðust inn í grafhýsið. Auk þess lést kona sem sprengdi sig í loft upp inni í grafhýsinu.

Einn þingmaður sagði í samtali við fréttastofuna IRIB að fjórir byssumenn hefðu ruðst inn í þingið í miðborg Tehran vopnaðir rifflum og skammbyssu.

Fréttastofurnar ISNA og Fars segja að þrír hafi verið skotnir eftir að byssumennirnir komust inn í norðurinngang byggingarinnar, þar á meðal einn öryggisvörður.

Grafhýsi Ayatollah Ruhollah Khomeini.
Grafhýsi Ayatollah Ruhollah Khomeini. AFP

Á sama tíma var gerð önnur árás í grafhýsi Khomeini.

Vopnaður maður komst inn um vesturinngang grafhýsisins og hóf skothríð áður en hann sprengdi sjálfan sig í loft upp með sjálfsmorðssprengjuvesti.

Grafhýsið er í um 20 kílómetra fjarlægð frá þinghúsinu.

ILNA-fréttastofan segir að fimm manns hafi særst í þeirri árás og að öryggissveitir væru að aftengja sprengju sem hefði verið komið fyrir þar inni.

Óljósar fregnir hafa borist úr þinghúsinu. Sumar fréttastofur segja að búið sé að ná stjórn á ástandinu á meðan aðrar segja að skotárás sé þar enn í gangi.

ISNA greinir frá því að árásarmennirnir þar hafi verið umkringdir en ekki sé búið að handtaka þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert