Bretar segja nei við May

Theresa May í kosningabaráttunni í lok maímánaðar.
Theresa May í kosningabaráttunni í lok maímánaðar. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur misst hreinan þingmeirihluta flokksins úr greipum sér samkvæmt nýjustu tölum og spám helstu fjölmiðla þar í landi.

Niðurstöður þingkosninganna sem haldnar voru í gær, fimmtudag, hafa komið mörgum í opna skjöldu. Það mikla forskot sem Íhaldsflokkurinn hafði í upphafi kosningabaráttunnar, þegar May tilkynnti að hún hefði ákveðið að efna til kosninga, hefur enda runnið út í sandinn að mestu leyti.

Slæmar útgönguspár fyrir Íhaldsflokkinn

Útgönguspár voru birtar þegar klukkuturn Westminster-hallar sló níu í gærkvöldi en samkvæmt þeim var útlitið ekki bjart fyrir May og flokksmenn hennar, þar sem því var spáð að flokkurinn myndi missa þann hreina meirihluta sem hann náði í kosningunum árið 2015.

Pundið féll um leið snögglega og á mörkuðum fóru menn að óttast að May myndi ekki takast að mynda ríkisstjórn, og jafnvel þurfa að víkja úr embætti. Klukkan tvö í nótt hafði pundið fallið um nær tvö prósent gagnvart bandaríkjadal.

Jeremy Corbyn hefur haft ástæðu til að gleðjast í nótt.
Jeremy Corbyn hefur haft ástæðu til að gleðjast í nótt. AFP

„Nóg til að fara“

Sjálf sagði May fyrr í nótt, eftir að hún hafði verið endurkjörin með miklum meirihluta atkvæða í kjördæmi sínu Maidenhead, að Bretland þyrfti á tímabili stöðugleika að halda. „Og ef svo fer sem horf­ir, að Íhalds­flokk­ur­inn fái flest þing­sæti og flest at­kvæði, þá ber hann skyldu til að tryggja þann stöðug­leika,“ sagði May í ræðu sinni.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, skoraði á sama tíma á May að segja af sér.

Sagði hann May hafa „misst þing­sæti Íhalds­flokks­ins, misst at­kvæði, misst stuðning og misst traust. Ég hefði haldið að það væri nóg til að fara,“ sagði Cor­byn eft­ir að hann hafði verið end­ur­kjör­inn með yf­ir­burðum í kjör­dæmi sínu, Norður-Isl­ingt­on í Lund­ún­um.

May mætir gagnrýni

May, sem tók við af Cameron í embætti í kjölfar Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar á síðasta ári, stendur nú frammi fyrir efasemdum um dómgreind sína eftir að hafa ákveðið að efna til kosninga þremur árum fyrir áætlaðan tíma þeirra og stefna þar með í hættu naumum en stöðugum meirihluta hennar á þingi.

Ljóst er að þrátt fyrir að flokkur hennar verði enn þá sá stærsti á þingi þá hafa kjósendur hafnað umleitunum hennar eftir frekara umboði.

Farage sparaði ekki stóru orðin í nótt.
Farage sparaði ekki stóru orðin í nótt. AFP

Nig­el Fara­ge, fyrr­ver­andi leiðtogi Breska sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í sam­tali við frétta­stofu BBC að það hefðu verið mis­tök fyr­ir Íhalds­flokk­inn að velja stjórn­mála­mann, sem hafði verið á móti út­göngu Breta úr ESB, til að sjá um Brex­it-ferlið. Sagði hann May hafa misst all­an trú­verðug­leika.

Í sam­tali við frétta­stofu ITV gekk hann enn þá lengra: „Hvað sem ger­ist í kvöld, þá er Th­eresa May búin að vera (e. toast).“

„Þetta er akkúrat andstæðan við þá ástæðu sem hún gaf fyrir að halda kosningarnar, og síðan þarf hún núna að fara og hefja viðræður um Brexit við ESB í enn þá veikari stöðu,“ segir Tony Travers, prófessor við Hagfræðiháskóla Lundúna, í samtali við fréttastofu AFP.

Skoski þjóðarflokkurinn tapar miklu

Útlit er fyrir að stjórnmálalandslagið sé nokkuð breytt eftir niðurstöður næturinnar, og því jafnvel verið snúið á hvolf eins og Corbyn komst að orði. Breski sjálfstæðisflokkurinn, sem hlaut 12,5% atkvæða fyrir tveimur árum og var mikill drifkraftur að baki Brexit-atkvæðagreiðslunni, virðist til að mynda eiga það á hættu að þurrkast út.

Frjálslyndir demókratar virðast þá ætla að bæta við sig nokkrum sætum þótt fyrrverandi leiðtogi þeirra, Nick Clegg, hafi misst sitt þingsæti.

Skoski þjóðarflokkurinn, sem bætti mikið við sig á þinginu í kosningunum árið 2015, lítur þá út fyrir að missa allt að 20 sæti af sínum 54.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert