Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, vill mynda minnihlutastjórn í kjölfar þingkosninganna í Bretlandi í gær. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph, en flokkur hans bætti við sig um þrjátíu þingsætum í kosningunum.
Verkamannaflokkurinn náði hins vegar ekki hreinum meirihluta í neðri deild breska þingsins. Gert er ráð fyrir að flokkurinn fái 262 þingsæti af 650 í heildina en úrslit liggja ekki fyrir í einu kjördæmi þar sem reiknað er með að frambjóðandi hans nái kjöri.
Corbyn hefur lýst yfir sigri Verkamannaflokksins í þingkosningunum og hvatt Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, til þess að segja af sér embætti í ljósi þess að flokkur hennar tapaði meirihluta sínum á þingi. May hefur hins vegar vísað þessu á bug.
Minnihlutastjórn Verkamannaflokksins mun hins vegar í raun þurfa á stuðningi eða hlutleysi allra flokka sem fengu fulltrúa kjörna í þingkosningunum í gær ef halda á Íhaldsflokknum frá völdum. Þar er um að ræða sex flokka auk Verkamannaflokksins.