Bandaríski hermaðurinn Chelsea Manning sem sat í sjö ár í fangelsi fyrir að hafa lekið hundruðum þúsunda skjala í eigu bandarískra stjórnvalda til uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks árið 2010 þakkaði Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fyrir að hafa mildað dóminn yfir henni.
Í stuttu viðtalsbroti þar sem rætt var við Manning á ABC í morgun sagðist hún ekki hafa haft samband við Obama síðan hann mildaði dóm hennar fyrir fimm mánuðum. Hún myndi segja honum hversu þakklát hún væri ef hún gæti.
„Ég fékk tækifæri og það var allt sem ég vildi,“ sagði Manning og bætti við, brostinni röddu: „Allt sem ég bað um var tækifæri.“
Manning, sem er 29 ára gömul, greindi frá því daginn eftir að hún var dæmd af herdómstólnum að hún hefði upplifað sig sem sem kvenkyns einstakling frá barnæsku og vildi lifa eftirleiðis sem kona undir nafninu Chelsea.
Hún fór í kynskiptiaðgerð stuttu eftir að hafa verið dæmd en herinn neitaði henni um að fara í hormónameðferð á meðan hún var bak við lás og slá. Henni var komið fyrir í einangrunarvist eftir að hún reyndi tvívegis að fremja sjálfsvíg.
Manning hélt áfram að berjast fyrir því að fá viðeigandi meðferð og yfirvöld létu loks undan. Í viðtalinu kemur hún inn á að hormónameðferðin hafi verið gríðarlega mikilvæg.
„Það er bókstaflega það sem heldur mér á lífi og kemur í veg fyrir að mér finnist ég vera í röngum líkama. Áður fyrr fékk ég hræðilega tilfinningu og mig langaði að rífa líkamann í sundur.“