Katar mun ekki gefast upp og hafnar öllum tilraunum til að reyna að hafa áhrif á stefnu sína í utanríkismálum. Þetta segir sjeikinn Mohammed bin Abdulrahman Al-Thani í samtali við fréttastofu AFP.
Segir hann ákall stjórnvalda Sádi-Arabíu og bandalagsríkja þeirra, um að Katar breyti um stefnu í utanríkismálum, vera óásættanlegt.
„Enginn hefur rétt á að hlutast til með utanríkisstefnu okkar,“ segir Al-Thani.
Þá slær hann út af borðinu hernaðarlega lausn á deilu ríkjanna. Katar geti „um alla tíð“ lifað af þær þvinganir sem nú beinast gegn landinu.
„Við erum ekki tilbúin að gefast upp, og ég mun aldrei verða reiðubúinn til að gefa upp sjálfstæði okkar í utanríkismálum,“ segir hann og bætir við: „Enginn mun yfirbuga okkur.“