Féllu á velferðinni en ekki Brexit

AFP

„Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins með stuðningi Lýðræðislega sambandsflokksins verður bæði veik og að sama skapi er staða May sem leiðtogi íhaldsmanna verulega löskuð eftir þessa útkomu enda var henni spáð 20% forskot á Verkamannaflokkinn þegar hún boðaði til kosninganna. Niðurstaðan er hins vegar sú að hún endar í 2% forskoti.“

Frétt mbl.is: Hvað verður um Brexit?

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is spurður um úrslit þingkosninganna í Bretlandi í gær en hann er í rannsóknaleyfi í London. Breski Íhaldsflokkurinn tapaði þingmeirihluta sínum í kosningunum undir forystu Theresu May forsætisráðherra og hyggst hún mynda minnihlutastjórn með stuðningi Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP, flokki sambandssinna á Norður-Írlandi.

Þarf að leita stuðnings í öllum málum

„Það verður sérstaklega erfitt fyrir nýju ríkisstjórnina að eiga í viðræðum við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands úr sambandinu. Bæði vegna þess að skiptar skoðanir eru innan Íhaldsflokksins um málið og sú er einnig raunin innan Lýðræðislega sambandsflokksins,“ segir Baldur. Ekki sé einhugur um það nákvæmlega hvernig taka eigi á þeim málum.

Þess utan muni May þurfa á stuðningi Lýðræðislega sambandsflokksins í hverju einasta máli sem hún leggi fyrir breska þingið. Lítil hefð sé fyrir minnihlutastjórnum í Bretlandi og ríkisstjórnir yfirleitt getað gengið út frá því að geta komið málum sínum í gegnum þingið. Viðbúið sé að Lýðræðislegi sambandsflokkurinn seti ýmis skilyrði fyrir stuðningnum.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor. mbl.is/Kristinn

„Til að mynda varðandi Brexit, varðandi stjórnarhætti á Norður-Írlandi og kröfur um aukið fjármagn til Norður-Írlands. Íhaldsflokkurinn á í rauninni ekki kost á öðru en að verða við þessum kröfum ef stjórnin á að sitja. Þannig að Lýðræðislegi sambandsflokkurinn er í lykilstöðu. Líka þar sem aðrir flokkar geta ekki hugsað sé að starfa með Íhaldsflokknum.“

Frétt mbl.is: Verður kosið aftur í Bretlandi?

Ekki megi hins vegar gleyma því að í gegnum tíðina hafi verið mjög gott samstarf á milli Íhaldsflokksins og Lýðræðislega sambandsflokksins sem sé fyrst og fremst íhaldssamur. Til að mynda hafi flokkurinn oft bjargað stjórnarfrumvörpum Íhaldsflokksins á 10. áratug síðustu aldar á breska þinginu þegar skort hafi á stuðning. Saga samstarfs væri því fyrir hendi.

Menntastefnan höfðaði til unga fólksins

Spurður hvað hafi valdið ósigri Íhaldsflokksins segir Baldur ljóst að May hafi ætlað að setja allt sitt traust á útgönguna úr Evrópusambandinu en þegar kosningabaráttan hafi farið að snúast um önnur mál sem snertu daglegt líf fólks beint, eins og heilbrigðis- og menntamál, hafi hallað undir fæti hjá Íhaldsflokknum en Verkamannaflokkurinn hins vegar færst í aukana.

„Ég tel að kjósendur, sérstaklega ungt og eldra fólk, hafi verið fyrst og fremst að kjósa stefnu Verkamannaflokksins í félags-, mennta- og heilbrigðismálum. Flokkurinn talaði mjög skýrt í þessum málaflokkum og lagði áherslu á þá gömlu stefnu hans að byggja upp velferðarkerfið og að aðgangur að því ætti að vera algerlega gjaldfrjáls fyrir alla,“ segir Baldur.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í dag. AFP

Þannig hafi ungt fólk aðallega verið að kjósa Verkamannaflokksins vegna menntastefnu hans. Þó flokkurinn hafi ekki náð hreinum þingmeirihluta og væri ekki á leið í ríkisstjórn hefði hann engu að síður fengið ágætis fylgi í sögulegu samhengi. Ofan á þetta hafi síðan bæst vandræði Íhaldsflokksins vegna niðurskurðar til löggæslumála í kjölfar hryðjuverkaárásanna.

Frétt mbl.is: Tekur Boris Johnson við af May?

Mikil einföldun sé þannig að skrifa ósigurinn alfarið á frammistöðu May í kosningabaráttunni þó hún hafi ekki verið góð. Skýringanna væri frekar að leita í stefnumálum Verkamannaflokksins sem hafi hlotið verulegan hljómgrunn. Þetta væri fyrst og fremst skýringin á óförum Íhaldsflokksins en stefna hans varðandi útgönguna úr Evrópusambandinu.

Corbyn talaði viljandi óljóst um Brexit

„Ef hugmyndin hafi verið að kjósa með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu eða nánari tengslum við sambandið eftir Brexit þá hefði Frjálslyndir demókratar átt að ná betri árangri. Verkamannaflokkurinn talaði ennfremur mjög óskýrt varðandi það mál. Það var viljandi gert til þess að höfða bæði til þeirra sem voru með og á móti því máli,“ segir hann ennfremur.

Þessi stefna Verkamannaflokksins hafi náð skilað árangri. Til að mynda hafi flokkurinn náð verulegu fylgi af Breska sjálfstæðisflokknum með því að tala afgerandi um velferðarmál en á sama tíma óljóst um útgönguna úr Evrópusambandinu. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hafi fetað fína línu í þessum efnum og tekist það vel.

Eins ef stefna May og Íhaldsflokksins í Evrópumálum hefði farið fyrir brjóstið á kjósendum flokksins hefði það komið fram miklu fyrr en rétt fyrir kosningar enda hafi áherslur hennar varðandi útgönguna úr Evrópusambandinu legið fyrir mánuðum saman. Hins vegar hafi Íhaldsflokkurinn lagt alla áherslu á Brexit en vanrækt stefnumótun í öðrum málum.

Downingstræti 10 í London, skrifstofa breska forsætisráðherrans.
Downingstræti 10 í London, skrifstofa breska forsætisráðherrans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka