Reynir að mynda nýja ríkisstjórn

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst ganga á fund Elísabetar Bretadrottningar í dag og biðja um heimild til þess að mynda nýja ríkisstjórn í kjölfar þingkosninganna í gær þar sem Íhaldsflokkur hennar missti meirihluta sinn í neðri deild breska þingsins.

Þetta kemur fram í frétt AFP og er haft eftir talsmanni forsætisráðherrans. Fundurinn fer fram klukkan 11.30 að íslenskum tíma í Buckingham-höll í London. Þrátt fyrir að hafa misst þingmeirihluta sinn er Íhaldsflokkurinn áfram stærsti stjórnmálaflokkur Bretlands.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að Lýðræðissinnaði sambandsflokkurinn (DUP) á Norður-Írlandi hafi samþykkt samstarf við May. Hins vegar sé ekki ljóst hvort flokkurinn muni taka sæti í nýrri ríkisstjórn eða einungis tryggja henni stuðning í þinginu.

Ennfremur segir í fréttinni að óformlegar viðræður hafi þegar farið fram í nótt um samstarf flokkanna tveggja. Haft er eftir fulltrúum Lýðræðissinnaða sambandsflokksins að flokkurinn hafi átt í góðu samstarfi við May frá því að hún tók við sem forsætisráðherra síðasta sumar.

Breska dagblaðið hefur einnig eftir fulltrúum DUP að samstarfið sé einnig grundvallað á þeirri sameiginlegu afstöðu flokkanna að tilhugsunin um að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Bretlands sé óbærileg.

Samanlagt hafa Íhaldsflokkurinn og Lýðræðislegi sambandsflokkurinn 328 þingmenn af þeim 650 sem sæti eiga í neðri deilt þingsins. Þar af er Íhaldsflokkurinn með 318 þingmenn og DUP, sem þykir íhaldssinnaður og er flokkur sambandssinna á Norður-Írlandi, með tíu. 

Takist May ekki að mynda ríkisstjórn fær Corbyn væntanlega tækifæri til þess. Hins vegar er ljóst að til þess að útiloka Íhaldsflokkinn frá völdum þarf hann í raun stuðning eða hlutleysi allra annarra flokka sem fengu fulltrúa kjörna eins og mbl.is hefur áður fjallað um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka