Spjótin standa á May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Kröfur um afsögn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, heyrast í auknum mæli í kjölfar þingkosninganna í gær þar sem Íhaldsflokkur hennar tapaði þingmeirihluta sínum. May boðaði til kosninganna um miðjan apríl með það að yfirlýstu markmiði að styrkja þingmeirihluta sinn en þess í stað hefur hún ákveðið að mynda minnihlutastjórn.

Kröfurnar koma bæði innan Íhaldsflokksins og utan hans. Forystumenn meðal annars Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata hafa kallað eftir afsögn May og áhrifamenn innan Íhaldsflokksins hafa lýst óánægju sinni með kosningabaráttu flokksins sem stýrt hafi verið af þröngum hópi fólks sem ráðherrann hafi raðað í kringum sig.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að margir þingmenn Íhaldsflokksins séu æfir yfir kosningabaráttunni og ósigrinum sem þeir telja að hefði mátt komast hjá. Alvarlegar umræður séu þegar hafnar innan flokksins um mögulegan arftaka May og að sama skapi þann möguleika að boðað verði aftur til kosninga. Jafnvel strax í haust.

Breskir fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að vitað væri að ráðherrar í ríkisstjórn May og margir frambjóðendur Íhaldsflokksins væru óánægðir með kosningabaráttuna á meðan hún væri enn í gangi. Eftir að úrslitin liggja fyrir virðist sem sú óánægja sé að koma upp á yfirborðið og má búast við að það gerist í auknum mæli á næstunni.

Mikill skortur á samráði um stefnuna

Þingmaðurinn Sarah Wollaston hefur meðal annars viðrað óánægju sína. Mjög hafi skort á að fleiri væru hafðir með í ráðum í kosningabaráttunni og við mótun kosningastefnu Íhaldsflokksins en þröngur hópur fólks í kringum May. Meðal annars varðandi þá stefnu að nota eignir eldra fólks til þess að greiða fyrir velferðarþjónustu þess.

Tvennt gerði það einkum að verkum að mati Wollaston að Íhaldsflokkurinn tapaði kosningunum. Annars vegar sú stefna að leyfa aftur refaveiðar og hins vegar velferðarmálin. Það hafi komið skýrt fram í hennar kjördæmi. Einnig hafi verið mistök að ráðast á Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem hafi skapað honum samúð.

Varðandi framtíð May hefur Guardian eftir Wollaston að hún telji að forsætisráðherrann ætti að vera áfram leiðtogi Íhaldsflokksins en það kæmi henni hins vegar ekki á óvart að boðað yrði aftur til þingkosninga innan ekki langs tíma. Hins vegar ætti May að losa sig við nánustu ráðgjafa sína. Vandséð væri hvernig þeir gætu haldið stöðum sínum.

Haft er eftir öðrum íhaldsmanni sem ekki vildi koma fram undir nafni að niðurstaða kosninganna þýddi að mikla breytingar yrðu að eiga sér stað í höfuðstöðvum Íhaldsflokksins og á skrifstofu forsætisráðherrans. Það væri ekki hægt að stýra stórum stjórnmálaflokki eins og Íhaldsflokknum eða ríkisstjórn í gegnum þröngan hóp ráðgjafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka