Vill bandalag gegn íhaldsmönnum

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. AFP

Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, Nicola Sturgeon, segist reiðubúin að mynda bandalag með öðrum stjórnmálaflokkum til þess að halda breska Íhaldsflokknum frá völdum í kjölfar þingkosninganna í Bretlandi í gær. Flokkur Sturgeons tapaði miklu fylgi frá síðustu kosningum.

Fram kom ennfremur í ávarpi sem Sturgeon flutti í dag að niðurstaða kosninganna væri vonbrigði en Skoski þjóðarflokkurinn tapaði 21 þingsæti. Fór úr 56 í 35. Flokkurinn tapaði þingsætum bæði til Íhaldsflokksins sem og Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata.

Meðal þingmanna Skoska þjóðarflokksins sem töpuðu sætum sínum eru Alex Salmond, fyrrverandi leiðtogi flokksins, og Angus Robertson, varaleiðtogi hans. Sturgeon minntist ósigurs þeirra og sagði Salmond meðal annars vera risa í skoskum stjórnmálum.

Sturgeon sagði niðurstöðu kosninganna ennfremur vera andstöðu við þá hörðu stefnu sem Íhaldsflokkurinn undir forystu Theresu May hafi rekið vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og kallaði eftir samstarfi við aðra flokka um mýkri nálgun.

Þá sagði hún Skoska þjóðarflokkinn ætla að hlusta á þau skilaboð sem kjósendur í Skotlandi hefðu sent í kosningunum. Gaf hún í skyn að frestað yrði áformum flokksins um að fram færi annað þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands frá breska konungdæminu.

Haft er eftir John Swinney, fyrrverandi leiðtoga Skoska þjóðarflokksins og ráðherra í skosku heimastjórninni, á fréttavef Guardian að niðurstöður þingkosninganna þýddu að Sturgeon yrði endurskoða áherslu sína á það að halda annað þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands.

Swinney segir ljóst að kosningarnar hafi verið lykilatriði í ósigri Skoska þjóðarflokksins en Íhaldsflokkurinn gerði andstöðu við annað þjóðaratkvæði að meginstefnumáli sínu. Fram kemur fréttinni að ýmsir aðrir forystumenn flokksins séu þessu hins vegar ósammála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka