Ignacio Echeverria, spænskur hjólabrettakappi og starfsmaður HSBC banka í London, sem lést þegar hryðjuverkmenn réðust á saklausa borgara á Borough matarmarkaðnum og Londonbrúnni þann 3. júní síðatliðinn, verður sæmdur heiðursorðu af forsætisráðherra Spánar fyrir hetjudáð sína. Þá verður nýr hjólabrettagarður í Madríd nefndur eftir honum. BBC greinir frá.
Echeverria reyndi að berjast gegn hryðjuverkamönnum með sveðjur í þeirri von um að bjarga konu sem verið var að stinga. Hann lést hins vegar sjálfur og var einn af átta fórnarlömbum árásarinnar.
Utanríkisráðherra Spánar lét þessi orð falla um Echeverria: „Hugrekki hans, að koma varnarlausri manneskju til varnar, minnir okkur á hvað það er mikilvægt að standa saman í baráttunni gegn hryðjuverkum.“
Kvöldið sem árásin átti sér stað hafði Echeverria verið að skemmta sér ásamt vinum á hjólabretti, og voru þeir að ganga í gegnum Borough markaðinn á leið í mat þegar þeir sáu mann liggja á götunni með stungusár. Þeir héldu í fyrstu að hann hefði verið stunginn í einhverjum drykkjulátum, en sáu skömmu síðar lögreglumann falla í jörðina og menn með hnífa ráðast á konu.
„Konan átti alla mína athygli, en allt í einu sá ég hvar Ignacio réðst á árásarmennina og lamdi þá með hjólabrettinu sínu,“ sagði vinur Echeverria, sem var með honum þetta kvöld, í samtali við spænska dagblaðið El País. Hann lést hins vegar skömmu síðar.
Lát hans var þó ekki staðfest fyrr en á miðvikudag og fjölskylda og vinir máttu því bíða á milli vonar og ótta í fjóra daga. 8 létust í árásinni og 48 særðust, þar af 21 lífshættulega.