May tilkynnir nýja ríkisstjórn sína

May gerir ekki miklar breytingar á milli ríkisstjórna.
May gerir ekki miklar breytingar á milli ríkisstjórna. AFP

Theresa May hefur tilkynnt hverjir taka sæti í ríkisstjórn hennar. Breytingarnar eru ekki miklar, en þó einhverjar í ljósi þess að hún Íhaldsflokkurinn tapaði þingmeirihluta sínum í kosningunum á fimmtudag. Að mestu leyti er um að ræða stólaskipti meðlima fyrri ríkisstjórnar.

Damian Green, fyrrverandi atvinnumálaráðherra, verður aðtoðarforsætisráðherra og staðgengill May, en David Gauke, tekur við atvinnumálaráðuneytinu af honum.

Liz Truss, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem hefur fengið á sig töluverða gagnrýni í sínu starfi, tekur við efnahagsráðuneytinu af Gauke, en David Lidington sest í stól dómsmálaráðherra.

Óvæntasta útspil May er þó líklega að tilnefna Michael Gove sem umhverfis- og landbúnaðarráðherra, innan við ári eftir að hún lét hann taka pokann sinn úr fyrri ríkisstjórn. Sjálfur segist hann í samtali við fréttastofu Sky News ekki hafa búist við þessu.

Það kom Gove á óvart að vera tilnefndur sem umhverfis- …
Það kom Gove á óvart að vera tilnefndur sem umhverfis- og landbúnaðarráðherra. AFP

Jeremy Hunt heldur starfi sínu sem heilbrigðisráðherra þrátt fyrir að hafa fengið á sig mikla gagnrýni, og Liam Fox verður áfram viðskiptaráðherra.

Það var tilkynnt strax á föstudag að May hygðist ekki gera neinar breytingar á æðstu ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Philip Hammond heldur til að mynda sínu sæti sem fjármálaráðherra þrátt sögusagnir um að hann yrði látinn fara. Þá heldur Boris Johnson áfram sem utanríkisráðherra og David Davis sem svokallaður Brexit ráðherra

Amber Rudd tók sæti sem innanríkiráðherra í stjórn May á síðasta ári og heldur sæti sínu. Það gerir einnig Michael Fallon varnarmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka