Breska pundið er að komast aftur á rétt ról eftir mesta gengisfall gjaldmiðilsins í um átta mánuði. Pundið féll talsvert í verði gagnvart öðrum gjaldmiðlum í framhaldi af þingkosningunum í Bretlandi í síðustu viku þar sem Íhaldsflokkurinn, flokkur forsætisráðherrans Theresu May, tapaði meirihluta sínum.
Pundið breyttist ekki ýkja mikið gagnvart Bandaríkjadal þegar markaðir opnuðu í morgun og nam um 1,2739 og lækkaði þá um 0,1% gagnvart evru, niður í 1,1367. Í dag nemur pundið 126,22 íslenskum krónum miðað við miðgengi Seðlabankans.
Að sögn sérfræðinga er þess nú beðið á mörkuðum að í ljós komi hvort og þá hvernig ný ríkisstjórn muni breyta nálgun sinni og stefnu varðandi Brexit nú í kjölfar kosninganna.
Gjaldeyrismarkaðir fylgjast því grannt með því hvort útkoma kosninganna muni hafa áhrif á samningaviðræður Breta við Evrópusambandið vegna útgöngu þeirra úr sambandinu. Viðræður eiga að hefjast í byrjun næstu viku en ætla má að útkoma viðræðnanna komi til með að hafa umtalsverð áhrif á bæði hagkerfi Bretlands og Evrópusambandsins.