Segja viðskiptabannið ólöglegt

Qatar Airways er stórt flugfélag í eigu stjórnvalda í Katar.
Qatar Airways er stórt flugfélag í eigu stjórnvalda í Katar. AFP

Flugfélagið Qatar Airways hefur farið fram á það við flugmálastofnun Sameinuðu þjóðanna að hún úrskurði viðskiptabann sem fjögur lönd hafa sett á flugfélagið ólöglegt. Telur félagið að viðskiptabannið sé brot á alþjóðasamningum um flugsamgöngur.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Barein, Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, tilkynntu á dögunum að þau ætluðu að slíta tengsl við Katar vegna meints stuðnings stjórnvalda þar í landi við hryðjuverkahópa. Bönnuðu stjórnvöld landanna fjögurra m.a. allt flug til og frá Doha, höfuðborgar Katar, en alþjóðaflugvöllurinn þar er einn sá stærsti á Arabíuskaga. Þá var öllum skrifstofum Qatar Airways í löndunum lokað. Einnig hefur Köturum verið bannað að fara um flugvelli landanna fjögurra. 

Akbar Al Baker, forstjóri Qatar Airways, segir að viðskiptabannið sé ólöglegt og hvetur stofnanir Sameinuðu þjóðanna til að bregðast við. Hann segir það í þeirra valdi að úrskurða að bannið sé ólöglegt og að því verði að aflétta. 

Baker segist hafa átt von á því að bandamenn Katara, m.a. Bandaríkjamenn, myndu standa með þeim. „Við ætlumst til þess af vinum okkar að þeir standi með okkur gegn þessu óréttláta og ólöglega banni.“

Útsendingar fréttastöðvarinnar Al-Jazeera hafa einnig verið bannaðar í löndunum fjórum. 

Qatar Airways er í eigu stjórnvalda í Katar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert