Verður Farage í viðræðunefndinni?

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins.
Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins. AFP

Fram kemur í breskum fjölmiðlum að Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) kunni að fara fram á það í viðræðum við breska Íhaldsflokkinn um samstarf flokkanna að Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, verði einn af fulltrúum breskra stjórnvalda í viðræðum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Fram kemur á fréttavefnum Yahoo News UK að þrýst sé á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins, að veita Farage háttsett embætti í tengslum við viðræðurnar við Evrópusambandið og gera hann ennfremur að lávarði. Að öðrum kosti gæti Breski sjálfstæðisflokkurinn sótt að Íhaldsflokknum sem er í sárum eftir þingkosningarnar á fimmtudaginn þar sem hann missti þingmeirihluta sinn.

Hugsanlegt er talið að til nýrra þingkosninga gæti komið í Bretlandi innan ekki langs tíma og jafnvel talað um næsta haust þar sem enginn flokkur náði hreinum meirihluta í breska þinginu. Farage hefur sagt að hann gæti hugsanlega snúið aftur í stjórnmálin í Bretlandi en hann situr á Evrópuþinginu fyrir Breska sjálfstæðisflokkinn.

May berst nú í bökkum við að halda í stjórnartaumana í Bretlandi og tryggja sér þingmeirihluta og áframhaldandi veru í embætti forsætisráðherra í samstarfi við Lýðræðislega sambandsflokkinn sem er stærsti flokkur sambandssinna á Norður-Írlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka