Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gagnrýnir harðlega viðskiptabönn og þvinganir sem fjögur lönd beita nú Katar vegna meints stuðnings yfirvalda þar í landi við hryðjuverkamenn. Tyrkir eru meðal helstu bandamanna Katara.
„Að grípa til aðgerða til að einangra land er að öllu leyti ómannúðlegt og stríðir gegn íslam,“ sagði Erdogan í sjónvarpsávarpi í dag. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Egyptalandi og Barein hafa slitið tengsl sín við Katar. Ákvörðunin felur m.a. í sér að Katarar geta ekki ferðast milli þessara landa og skrifstofum Qatar Airways í löndunum fjórum hefur verið lokað. Ýmis önnur viðskiptabönn og þvinganir koma einnig við sögu.
Deilur ríkjanna hafa gert stöðu Tyrklands viðkvæmari þar sem Katarar eru þeirra helstu bandamenn á Arabíuskaga. Tyrkir hafa að sama skapi verið að reyna að bæta samskipti sín við Sádi-Araba og eru því í töluverðri klemmu nú.
Erdogan sagðist í dag ætla að eiga símafund með Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Sheikh Tamim bin Hamad Al-Thani, emírnum af Katar. Þetta mál verði í forgangi á fundinum.
Erdogan kom vinum sínum í Katar til varnar m.a. með því að hafna þeirri kenningu að þeir styðji við bakið á hryðjuverkamönnum. Þeir hafi þvert á móti verið harðir andstæðingar vígamanna Ríkis íslams.
Erdogan varð að dansa á fínni línu í ávarpi sínu og kom sér undan því að gagnrýna beinlínis Sádi-Araba vegna viðskiptaþvingananna. Hann sagði þó að konungur Sádi-Arabíu ætti að taka að sér það hlutverk að leysa deiluna.