Lést eftir synjun um hæli í Svíþjóð

Stjórnvöldum í Kabúl hefur verið mótmælt harðlega vegna óstöðugleika og …
Stjórnvöldum í Kabúl hefur verið mótmælt harðlega vegna óstöðugleika og óöryggis. Frá mótmælum 2. júní. AFP

Afganskur táningsdrengur lést í sprengjuárás í Kabúl þegar ekki var vika liðin frá því sænsk stjórnvöld létu flytja hann úr landi, eftir að honum hafði verið synjað um hæli.

Frá þessu greinir Mannréttindavaktin, alþjóðleg og óháð samtök sem eru með aðalstöðvar í New York. Kalla samtökin eftir því að ríki Evrópu hætti að senda hælisleitendur aftur til Afganistans þar sem höfuðborgin Kabúl sé ekki örugg.

Drengurinn var á meðal tuttugu hælisleitenda sem Svíþjóð sendi úr landi 30. maí. Hann lést aðeins fjórum dögum síðar, 3. júní, þegar sprengja var sprengd við líkfylgd manns, sem látist hafði í mótmælum gegn ríkisstjórninni vegna sífellt aukins ófriðar og óöryggis í borginni.

„Evrópsk lönd hafa í auknum mæli hafnað hælisbeiðnum Afgana án þess að hafna því að þeir þarfnist verndar,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. „Það að Kabúl sé álitin „örugg“ fyrir Afgana hefur raunverulegar afleiðingar í för með sér... Kabúl er ekki örugg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert