Yfirferð sönnunargagna í réttarhöldunum í kynferðisafbrotamáli yfir Bill Cosby gengu hraðar fyrir sig en gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu. Aftur á móti hefur kviðdómur tekið sér langan tíma til að hugsa sig um en í gær lauk þriðja degi sem kviðdómur hefur nýtt til þess að fara yfir gögn málsins. Kviðdómur hafði þá varið 28 klukkustundum í að fara yfir málið, án þess að komast að niðurstöðu.
Cosby hefur beðið átekta réttarsalnum eða í hliðarherbergi á meðan kviðdómur ræður ráðum sínum en einnig var stödd á svæðinu í gær Andrea Constand, konan sem hann er sakaður um að hafa brotið á. Constant sakar Cosby um að hafa byrlað sér ólyfjan og svo brotið á henni þar sem hún lá hálfmeðvitundarlaus. Atvikið mun hafa átt sér stað fyrir 13 árum.
Kviðdómarar hafa kallað eftir svörum dómara við ýmsum spurningum til að öðlast dýpri skilning á málinu eða farið fram á að farið verði yfir sönnunargögn í annað sinn. Allir þeir sem fylgjast með málinu og bíða á göngum dómstólsins eru sagðir hafa sína skoðun á því á hvorn veginn málið muni fara, en enginn veit það fyrir víst.
Umhugsunartími kviðdóms hefur verið lengur og þykir liggja ljóst fyrir að það muni skapa þrýsting á þær fimm konur og sjö karlmenn sem skipa kviðdóminn, en þau hafast við á hóteli í grennd við dómstólinn, langt í burtu frá heimilum sínum.
„Þið megið ekki einu sinni ræða málið nokkurn í fjölskyldu ykkar,“ mun dómarinn O‘Neill hafa sagt við kviðdómarana.