„Ég varð mjög hræddur“

Þorpið Nu­uga­atsiaq á Grænlandi.
Þorpið Nu­uga­atsiaq á Grænlandi. Ljósmynd/Jón Viðar Sigurðsson

Þorpið Nuugaatsiaq varð hvað verst úti þegar jarðskjálfti og flóðbylgja skók vesturströnd Grænlands um liðna helgi eftir að gríðarstór skriða féll úr fjalli í Karratfirði við vesturströnd landsins. Nukanntuaq Samuelsen er fjögurra barna faðir frá Nuugaatsiaq og var að róa heim frá fiskveiðum ásamt syni sínum þegar eiginkona hans hringdi.

„Hún segir að það sé að koma flóðbylgja. Svo hringir hún aftur mínútu síðar og segir að öldurnar hafi náð alveg að húsinu. Húsið okkar er staðset tiltölulega hátt uppi, og ég varð þess vegna mjög hræddur og ég sá að það voru komnar meiriháttar öldur,“ segir Samuelsen, í viðtali við grænleska ríkisfjölmiðilinn KNR.

Samuelsen hvatti því konu sína og börn til að flýja upp til fjalla en honum var að sögn mjög brugðið þegar hann sá það sem fyrir augu bar.

„Þau flúðu og við sáum að fleiri hús höfðu verið hrifsuð niður í vatnið,“ segir Samuelsen. Feðgarnir gátu fátt annað gert en að bíða í bátnum og fylgst með þar sem ekki var hægt að róa í land vegna mikils öldugangs.

Flestir íbúar Nuugaatsiaq voru á þessum tímapunkti þegar flúnir af stað upp til fjalla. Vatnið náði alla leið upp að húsi Samuelsen sem skemmdist þó ekki í flóðinu. „Húsið okkar liggur ofar svo við höfum ekki tapað húsinu okkar. En í grenndinni voru sjö hús hrifsuð í hafið og önnur færðust úr stað,“ bætir Samuelsen við.

Samuelsen og sonur hans náðu loks í land og flúðu upp til fjalla til hinna íbúa þorpsins sem þangað voru komnir. Hann segist hafa átt erfitt með að gera sér grein fyrir því hvernig tímanum leið en áætlar að liðið hafi um ein klukkustund þar til lögregla og viðbragðsaðilar mættu á staðinn.

„Við vorum þarna í um það bil eina klukkustund. Og svo komu tvær flugvélar til hjálpar,“ segir Samuelsen. Nú hafast nokkrir íbúa þorpsins við í frístundaheimili í bænum Uummannaq. „Við finnum styrk í því að vera komin öll saman og sú hjálp sem við fáum hefur komið sér vel.

Laugardagurinn 17. júní 2017 mun alltaf vera sá dagur sem fjölskyldan missti stóran hluta þess sem hún átti að því er Samuelsen segir í samtali við KNR.

„Við reynum að vera þolinmóð því við vitum ekki hvað næstu dagar bera í skauti sér. Við höfum glatað svo miklu; snjósleða, búnaði, hundum og öllu mögulegu. Það eina sem við getum gert í bili er að bíða,“ segir Samuelsen að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert