Skriða sem féll úr fjalli í Karratfirði á vesturströnd Grænlands féll í sjó fram og varð til þess að flóðbylgja myndaðist sem svo gekk á land og olli mikilli eyðileggingu. Fjögurra er enn saknað.
Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð hefur verið á vettvangi. Í gær var enn ekki vitað hvort að það var jarðskjálfti eða berghlaup sem olli flóðbylgjunni á laugardagskvöld.
Í tilkynningu frá yfirvöldum segir að berghlaup hafi orðið í Karratfirðinum á Norðvestur-Grænlandi á laugardag. Bergstykkið sem losnaði úr fjallinu og hljóp fram í sjó var um það bil 300 metrar á hæð og 1.100 metrar á breidd. Þetta olli svo flóðbylgjunni sem skall á ströndum í nágrenninu.
Við rannsókn hefur komið í ljós að stórt stykki vantar í fjallið, segir í frétt grænlenska ríkissjónvarpsins um málið. Ekki er vitað hvort að berghlaupið framkallaði jarðskjálftann eða hvort jarðskjálftinn olli því að hlaupið í fjallinu varð.
House swept away by the tsunami in Uummannaq area. Photo: Søren Lund pic.twitter.com/vqUXRj7ERD
— ANGU (@AnguMotzfeldt) June 19, 2017