Langar vegalengdir og afskekkt svæði gera rýmingu í kjölfar berghlaups á vesturströnd Grænlands erfiða. Rýmingu hefur enn ekki verið aflétt og fleiri svæði hafa verið rýmd.
Claus Munk, sérfræðingur hjá Björgunarmiðstöðinni í Danmörku segir að Grænland sé gjörólíkt löndum Skandinavíu. Landslagið sé erfitt yfirferðar og vegalengdirnar gríðarlegar. „Vegalengdin frá norðurhluta Grænlands til þess syðsta er sú sama og frá Noregi til Norður-Afríku.“
Ekki er heldur að finna fjölmennar sveitir viðbragðsaðila á Grænlandi. Því hafi ekki verið hægt að kalla út mikinn mannskap er berghlaup á Vesturströndinni, jarðskjálfti fylgdi og flóðbylgja sem fór á land og olli eyðileggingu og slasaði fólk.
Þorpin sem urðu illa úti eru einangruð. Þangað liggja ekki góðir vegir heldur þarf að komast þangað í lofti eða á sjó.
2 seriously injured, 7 slightly injured, 4 missing, 11 houses gone, after June 18 #tsunami, #earthquake in NW #Greenland. pic.twitter.com/qHP3owea7u
— Nunatsiaq News (@NunatsiaqNews) June 18, 2017
Munk bendir á, í samtali við Danska ríkisútvarpið, að jafnvel þótt vesturströndin sé eitt þéttbýlasta svæðið á Grænlandi sé mjög langt á milli þorpa og bæja. Oft geti verið illfært, jafnvel á sjó, þar sem hafís hefti för.
Íbúar komu því sjálfir að björgunarstarfinu um helgina. Þeir buðu fram báta sína og fleira, að sögn Munks.
Munk segir að efla verði viðbúnað á Grænlandi. Hann segir að Danir vilji gjarnan hjálpa en það sé ekki alltaf mögulegt þar sem tíma tekur fyrir björgunarlið þaðan að fara á staðinn.
Her- og strandgæsluskip hafa aðstoðað við að rýma þorp og bæi. Hafa skipin Vædderen og Ejnar Mikkelsen flutt íbúa í öruggt skjól.
Í dag verða þyrlur og flugvélar notaðar til að mynda hamfarasvæðin úr lofti og til að aðstoða við að greina frekari hættu. Enn er talin hætta á frekari skriðuföllum og því hafa fleiri svæði verið rýmd.