Íbúar í Nuuk, höfuðborg Grænlands hafa safnað saman fötum, skóm og leikföngum og sent til annarra íbúa norðar í landinu sem hafa margir glatað eigum sínum og húsnæði í kjölfar náttúruhamfaranna sem urðu þar í landi um helgina.
Herstjórn Dana á Grænlandi (Joint Arctic Command) greinir frá því á Facebook að klukkan 13:30 í dag hafi varningurinn verið sendur með herflugvélinni C-130J Hercules frá Nuuk og á flugvöllinn Qaarsut sem er norðar í landinu. Samanstendur farmurinn af um 20 pappakössum og 60 öðrum flutningskössum fullum af fatnaði og ýmsum búnaði sem íbúar Nuuk hafa safnað saman fyrir samlanda sína sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín. Alls hafa yfir 100 manns frá grænlensku þorpunum Nuugaatsiaq, Illorsuit og Niaqornat verið fluttir á brott frá heimilum sínum vegna hamfaranna.
Sjá má fleiri myndir frá því þegar varningurinn var ferjaður frá Nuuk í Facebook-færslu herstjórnarinnar sem sjá má hér að neðan.