„Hún þjáist ekki“

Olivia Campbell var 15 ára gömul.
Olivia Campbell var 15 ára gömul.

Fjölskylda hinnar 15 ára gömlu Oliviu Campbell sem lést í hryðjuverkaárásinni í Manchester í síðasta mánuði finnur ekki fyrir hatri eða reiði yfir því sem gerðist. Útför Campbell fer fram í dag og eftir hana verður haldin veisla þar sem lífi stúlkunnar verður fagnað. Almenningi hefur verið boðið í athöfnina.

Móðir stúlkunnar, Charlotte Campbell, segir að reiði myndi taka frá henni ástina og þær fallegu minningar sem hún á með dóttur sinni. Hún var ein þeirra tuttugu og tveggja sem létust þegar árásarmaður sprengdi sig í loft upp á tónleikum söngkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni í maí.

AFP

Foreldrar stúlkunnar hafa hvatt gesti til að koma frekar í bláu en svörtu í útförina. Eftir hana verður haldin veisla þar sem lífi stúlkunnar verður fagnað. „Við ætlum að fagna öllu því sem við munum nú aldrei geta fagnað með henni: dansleikjum, 16 ára afmælinu hennar, 18 ára afmælinu hennar, 21 árs afmælinu hennar, brúðkaupinu hennar - öllu.“

Í samtali við Sky News sagði móðirin að undanfarnar vikur hafi verið gríðarlega erfiðar. „Ég er ekki að lifa dag fyrir dag, heldur mínútu fyrir mínútu. Ekkert mun breytast í langan tíma. Ég hef misst dóttur mína. Ég hef misst barnið mitt og þarf að glíma við það í augnablikinu.“

Hún sagðist þó stundum standa sjálfa sig að því að brosa yfir fallegum minningum. „Ég brosi yfir minningunum. Ég brosi líka yfir því að hún þurfi ekki að lifa við minninguna um þetta. Hún þjáist ekki.“

Olivia Campbell.
Olivia Campbell. Skjáskot af Facebook

Olivia var á tónleikunum með vini sínum, Adam Lawler. Hann slasaðist alvarlega í árásinni, en stefnir á að mæta í útförina í dag.

Faðir Oliviu, Paul Hodgson, segir ástæðu þess að almenningi hafi verið boðið vera þá að hann hefði verið til staðar fyrir fjölskylduna eftir árásina. „Fólk hefur tekið tíma úr þeirra eigin lífi síðustu fjórar vikur til að gera hluti fyrir okkur, hvort sem það hefur verið að halda fjáraflanir eða hjálpa okkur með daglega hluti eins og að versla. Allt þetta fólk hefur verið til staðar fyrir okkur.“

Frétt Sky News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert