Lítil sprenging á lestarstöð í Brussel

Hermaður stendur vörð við afgirt svæði umhverfis aðal lestarstöðina í …
Hermaður stendur vörð við afgirt svæði umhverfis aðal lestarstöðina í Brussel í kvöld. AFP

Aðallestarstöðin í Brussel hefur verið rýmd eftir að þar varð lítil sprenging nú fyrir skömmu. Að sögn lögreglu í Belgíu er lögregla með tök á aðstæðum á staðnum. Fregnir herma að einstaklingur klæddur sprengjuvesti á lestarstöðinni hafi verið tekinn úr umferð.  

Þá hefur aðaltorg borgarinnar einnig verið rýmt.

Samkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar tókst hermönnum sem stóðu vakt við lestarstöðina að taka einn grunaðan úr umferð eftir að þar varð lítil sprenging. Enginn annar er talinn slasaður.

Uppfært kl. 20:00

Fregnir herma að lögregla hafi skotið sprengjumanninn til bana. Lögregla hefur þó ekki staðfest að sá einstaklingur hafi verið klæddur sprengjuvesti líkt og fram hefur komið í fréttum. Ekki liggur ljóst fyrir hvort maðurinn er á lífi eða hvort hann var skotinn til bana.

„Í augnablikinu er fjöldi lögreglumanna á lestarstöðinni og lögregla er með málið undir sinni stjórn,“ hefur Reuters eftir talsmanni lögreglunnar.

Lestarstöðin er í grennd við sögufræga staði í miðborginni sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna sem og heimamanna í Brussel. Svæðið umhverfis lestarstöðina hefur einnig verið að hluta til rýmt og afgirt af lögreglu.

CNN birtir mynd frá lestarstöðinni sem sögð er vera af sprengingunni. Líkt og sjá má á myndinni er að því er virðist um afar litla sprengingu að ræða.

 Uppfært kl. 20:15

„Hvellurinn var mjög hávær, það var eins og mjög kraftmikill flugeldur hefði sprungið fyrir framan nefið á mér,“ segir Remy Bonnaffe, vitni sem var á staðnum, í samtali við CNN.

Utanríkisráðuneyti Belgíu segir viðbragðsaðila vera á svæðinu, hermenn og fjölmennt lið lögreglu, þar á meðal sprengjusveitina.

Uppfært kl. 20:33

Samkvæmt Belgíska fjölmiðlinum La Libre Belgique bar maðurinn sem setti af sprengjuna um sig sprengjubelti og bakboka. Hann hafi sprengjuna í gang þegar hermenn veittu honum athygli á lestarstöðinni að því er La Liberte greinir frá.

Þá hafa nokkrir belgískir fjölmiðlar það eftir vitnum sem voru á lestarstöðinni að maðurinn hafi kallað „Allahu Akbar“ eða „Guð er mestur“ áður en sprengjan sprakk.

Þegar lestarstöðin var rýmd var eigendum verslana og veitingastaða einnig gert að loka stöðum sínum. Þá liggja lestarferðir um stöðina niðri sem stendur að því er RTL-útvarpsstöðin greinir frá.

32 létu lífið í árás sem gerð var í Brussel í mars á síðasta ári. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu þá yfir ábyrgð á verknaðinum.

Lestarstöðin hefur verið rýmd og hluti svæðisins í kringum hana.
Lestarstöðin hefur verið rýmd og hluti svæðisins í kringum hana. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert