Þurftu að hætta leit vegna slæmra skilyrða

Enn þá er fjögurra saknað frá grænlenska þorpinu Nuugaatsiaq. Herstjórn …
Enn þá er fjögurra saknað frá grænlenska þorpinu Nuugaatsiaq. Herstjórn Dana á Grænlandi birtir á Facebook-síðu sinni fleiri myndir frá svæðinu sem sjá má neðst í fréttinni. Ljósmynd/Palle Lauritsen

Í nótt voru sex menn á vegum herstjórnar Dana í Grænlandi sendir með rannsóknarskipinu Vædderen að landi við þorpið Nuugaatsiaq á Grænlandi sem varð illa úti í flóðbylgjunni sem þar varð um helgina.

Mennirnir sex fóru meðal annars í þeim erindagjörðum að gefa sleðahundum í þorpinu í svanginn og til að endurræsa vararafstöð svo að fjarskiptasamband á svæðinu kæmist aftur í rétt horf, einkum til að tryggja öruggt fjarskiptasamband á meðan björgunaraðgerðir standa yfir. Skimuðu mennirnir einnig eftir þeim fjórum einstaklingum sem enn er saknað eftir flóðbylgjuna en fólkið var að sögn inni í einu húsanna sem aldan hrifsaði á haf út. Svæðið mun vera afar erfitt yfirferðar, legið þéttum ís og skyggni slæmt. Þurfti því að hætta leit að fólkinu í bili.

„Þegar unnt verður að halda leit áfram verður ákvörðun tekin í samráði við grænlensku lögregluna,“ segir Jette Elkjær, fjölmiðlafulltrúi dönsku herstjórnarinnar, við grænlenska ríkisfjölmiðilinn KNR. Þá hefur lögreglan í Grænlandi staðfest að vegna veðurskilyrða sé ómögulegt að halda leit áfram að svo stöddu.

Þá eru íbúar byggðanna í Saattut, Ukkusissat, Ikerasak og Qaarsut hvattir til að fylgjast grannt með nærumhverfi sínu, hæð vatnsyfirborðs og vatnavöxtum, en það er mat lögreglu að enn kunni að vera hætta á frekari hamförum á svæðinu.

Herstjórn Dana í Grænlandi (Joint Arctic Command) birti á Facebook-síðu sinni í dag myndir frá svæðinu en af myndunum að dæma hefur flóðið tekið sinn toll í þorpinu Nuugaatsiaq.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert