Yfirvöld í Belgíu hafa borið kennsl á manninn sem var ábyrgur fyrir sprengingu á Aðallestarstöðinni í Brussel í gærkvöldi. Jan Jambon, innanríkisráðherra landsins, hefur staðfest þetta án þess að gefa frekari upplýsingar um manninn.
„Við vitum hver árásarmaðurinn er. Okkur hefur tekist að bera kennsl á hann,“ sagði Jambon í útvarpsviðtali í morgun. Þá sagði hann að árásin hefði getað verið mun verri, þar sem „stóra sprengingin varð ekki“.
Árásarmaðurinn var sá eini sem féll í árásinni, en hann var skotinn til bana af hermönnum. Er hann sagður hafa verið með sprengjubelti þegar hann var skotinn.
Þá segja vitni að maðurinn hafi öskrað „Allahu Akbar“ eða „Guð er mestur“ áður en sprengjan sprakk. Sprengjan var lítil en kraftmikil, en árásin er rannsökuð sem hryðjuverk.
Frétt mbl.is: Rannsakað sem hryðjuverk
Frétt mbl.is: Sprenging á lestarstöð í Brussel