Heldur áfram að njóta Brussel

Sérfræðingar að störfum við brautarstöðina í Brussel í morgun.
Sérfræðingar að störfum við brautarstöðina í Brussel í morgun. AFP

„Hermenn eru á öllum lestarstöðum og mörgum neðanjarðarlestarstöðvum og stundum á götunum fyrir ofan helstu stöðvarnar,“ segir Charles Gittins, fyrrverandi starfsmaður Iceland Monitor, við mbl.is. Charles flutti til Brussel í janúar en segist ekki ætla að láta árásir, svipaða þá og var í borginni í gær, slá sig út af laginu.

Hann kveðst ekki hafa tekið eftir því að neitt væri öðruvísi í morgun heldur en aðra daga í kjölfar hryðjuverkatilraunar í borginni í gær.

36 ára karlmaður er grunaður um að hafa sprengt sprengju á aðal­braut­ar­stöðinni í Brus­sel í gær­kvöld en maðurinn var skot­inn og dó eft­ir spreng­in­una. At­vikið er rann­sakað sem hryðju­verk.

Charles segir að hann hafi fengið fjölda skilaboða á Facebook í gærkvöldi, þar sem spurt var hvort hann væri í lagi en fólk hafði heyrt af sprengingunni. 

Charles Gittins.
Charles Gittins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þá sá ég líka skilaboð og pósta á Facebook þar sem fólk sagði að það myndi aldrei fara til Brussel eða London. Það má enginn ætlast til þess að ég verði hræddur eða hætti að gera hitt og þetta. Ég vil ekki gera lítið úr því sem gerðist en líkurnar á því að lenda í hryðjuverki eru mjög litlar,“ segir Charles.

„Heimurinn hefur aldrei verið öruggari staður og ég ætla að halda áfram að njóta þess að búa í Brussel, sem er frábær borg.“

Hann tjáði sig einnig á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hann þakkaði fyrir skilaboðin sem hann hefði fengið. „Ég fer í rúmið í kvöld með þá vitneskju að það er mun líklegra að ég verði fyrir bíl í Brussel og deyi eða kafni á banana eða vöfflu en að ég verði fyrir hryðjuverkaárás,“ skrifaði Charles.

„Ég hlakka til að fara í vinnuna í fyrramálið, brosandi í sumarsólinni þar sem ég dáist að fegurðinni í Brussel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert