Maðurinn sem grunaður er um að hafa sprengt sprengju á aðalbrautarstöðinni í Brussel í gærkvöld er 36 ára karlmaður frá Marokkó. Hann bjó í innflytjendahverfinu Molenbeek.
Maðurinn var skotinn og dó eftir sprenginuna en atvikið er rannsakað sem hryðjuverk. Maðurinn er sagður hafa verið með sprengjubelti þegar hann var skotinn.
Lögregla vissi hver maðurinn var en hann hafði ekki verið tengdur við hryðjuverkasamtök, samkvæmt erlendum fjölmiðlum.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, sagði fjölmiðlum að „komið hefði verið í veg fyrir hryðjuverkaárás“ á lestarstöðinni. Hermönnum sem hefðu verið við störf tókst að gera árásarmanninn óvirkan, sagði Michel.
Eftir að hafa kallað saman fund í morgun sagði forsætisráðherrann að aukin áhersla verði lögð á öryggismál á almennum stöðum og stórum viðburðum. Stórtónleikar Coldplay fara fram í borginni í kvöld eins og gert var ráð fyrir.
Nicolas Van Herrewegen, starfsmaður á lestarstöðinni, sagðist hafa heyrt öskur á stöðinni í gærkvöldi. „Ég heyrði mann öskra „Allah Akbar“ og hann sprengdi upp hvíta ferðatösku,“ sagði hann við AFP.
„Ég stóð bak við vegginn þegar hann sprakk. Ég fór niður og varaði félaga mína við og sagði þeim að koma öllum út. Hinn grunaði var enn á svæðinu en stuttu síðar sáum við hann ekki lengur. Sprengjan sjálf var ekki það stór en áhrifin voru gríðarleg; allir hlupu út,“ bætti hann við.