Enn ríkir töluverð óvissa á Grænlandi

Heimili fólks hafa skolast á haf út.
Heimili fólks hafa skolast á haf út. Ljósmynd/Arktisk Kommando: Palle Lauritsen

Fjórir eru taldir af, þrjú þorp standa auð og yfirvöld óttast annað berghlaup. Ástandið á Grænlandi er grafalvarlegt og enn ríkir töluverð óvissa um framhaldið. Ís, þoka og yfirvofandi hætta á öðru berghlaupi hefur hamlað leit að fjórum einstaklingum sem enn er saknað frá Nuugaatisiaq. Kona, karl og barn þeirra ásamt eldri manni eru talin látin.

190 manns flutt frá heimilum sínum

Fleiri hús hafa skolast á haf út og 11 önnur eru gjöreyðilögð. Þrjú þorp eru nú alveg mannlaus en 190 manns hafa verið flutt á brott úr þorpunum Nuugaatsiaq, Illorsuit og Niaqornat. Yfirvöld óttast annað berghlaup sem gæti komið af stað nýrri fljóðbylgju en ómögulegt er að segja til um hvenær það gerist. Af sömu ástæðu er erfitt að áætla hvenær fólk geti snúið aftur í þorpin sín.

Mörg hús eru gjöreyðilögð eftir flóðbylgjuna.
Mörg hús eru gjöreyðilögð eftir flóðbylgjuna. Ljósmynd/Arktisk Kommando: Palle Lauritsen

Svæðið enn vaktað 

Stöðugt eftirlit er á svæðinu bæði af sjó og úr lofti svo hægt sé að bregðast skjótt við ef annað berghlaup fer af stað úr hlíðinni. Varðskipið Aries og lögregluskipið Sisak IV eru enn að vakta svæðið og hafa auga með mannlausu þorpunum þremur.

Flóðbylgjan fór af stað vegna berghlaups úr fjallinu þar sem 1.000x300 metra berg féll niður í Karrat-fjörð á vesturströnd landsins. Jarðfræðingar hafa ekki enn staðfest hvað kom berghlaupinu af stað.

Grænlenski fréttamiðillinn Sermitsiaq greindi frá.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert