95 byggingar standast ekki kröfur

Snúa þarf við hverjum steini í rannsókninni á eldsvoðanum í Grenfell-turninum. Þetta kemur fram í opnu bréfi til Thersesu May forsætisráðherra. Bréfið er frá íbúum fjölbýlishússins en 79 létust í eldsvoðanum. 95 byggingar í 32 sveitarfélögum standast ekki krörfur um brunavarnir. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Mannvirkjastofnun hefur sent opinbert erindi til byggingaryfirvalda í Bretlandi um samsetningu einangrunarefnis og klæðningar í Grenfell-turni sem varð alelda fyrr í mánuðinum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Þegar þetta gerðist töluðum við saman, ég og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, og fljótlega upp úr því fór Mannvirkjastofnun fram á það við bresk yfirvöld að við fengjum upplýsingar um nákvæmlega hvernig þessi uppbygging á ytra byrði byggingarinnar hefði verið,“ segir Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunnar.

Björn segir Mannvirkjastofnun hafa fylgst vel með gangi mála í Bretlandi eftir brunann og segir hann að einangrunarefnið bak við klæðninguna hafi átt stóran þátt í hversu hratt eldurinn breiddist út um turninn.

Aðstoðaryfirlögregluþjónninn Fiona McCormack, sem hefur yfirumsjón með rannsókn á brunanum, segir í samtali við The Guardian að fyrstu rannsóknir sýni að einangrunarefnið á bak við klæðninguna hafi verið eldfimara en klæðningin sjálf.

Grenfell-turninn var klæddur með svokallaðri Reynobond-klæðningu sem er álplata með plast báðum megin og virkar eins og regnhlíf á turninn. Einangrunarefnið undir klæðningunni var Celotex RS5000, en 50 mm bil var á milli einangrunarinnar og klæðningarinnar og er talið að loftið þar á milli hafi haft eins konar skorsteinsáhrif og leitt eld upp allan turninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert