Bandarísk yfirvöld telja að verið sé að undirbúa aðra efnavopnaárás í Sýrlandi og hafa varað þarlend yfirvöld við afleiðingunum ef slík árás verður gerð. Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu virðist undirbúningurinn vera svipaður og þegar efnavopnaárás var gerð á þorp í landinu í apríl.
Tugir létust í þeirri árás og varð hún kveikjan að ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að samþykkja loftárás á herstöð sýrlenska flughersins.
Samkvæmt frétt BBC er forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, varaður við því að hann verði látinn gjalda þess dýru verði ef önnur slík árás verði gerð.
Þar kemur einnig fram að önnur efnavopnaárás af hálfu stjórnar Assad myndi að öllum líkindum valda dauða fjölda almennra borgara.
Í viðvörun bandarískra stjórnvalda kemur fram að líkt og áður hafi komið fram eru Bandaríkin í Sýrlandi til þess að eyða Ríki íslams. Hins vegar ef Assad ber ábyrgð á öðru fjöldamorði þar sem efnavopnum er beitt þá muni hann og her hans gjalda þess dýru verði.
Assad hefur neitað því að her hans standi á bak við taugagasárásina í bænum Khan Sheikhoun í apríl en þar létust tugir bæjarbúa, þar á meðal fjölmörg börn.
Í kjölfarið var skotið 59 Tomahawk-eldflaugum af herskipi Bandaríkjahers á Miðjarðarhafi á Shayrat-herstöðina í Holms-héraði en þar voru geymd efnavopn, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum yfirvöldum.