Starfsemi liggur niðri vegna árásarinnar

Gíslatöku­vírus­inn sem um ræðir hef­ur verið kallaður Petrwrap.
Gíslatöku­vírus­inn sem um ræðir hef­ur verið kallaður Petrwrap. AFP

Danska flutningsfyrirtækið Mærsk getir ekki sagt til um það að svo stöddu hvenær öll vandamál verða úr vegi eftir að fyrirtækið varð fyrir tölvuárás sem herjaði á tölvukerfi fyrirtækja og opinberra stofnana í nokkrum löndum í gær. Þetta segir Vincent Clerc, viðskiptastjóri hjá Mærsk Line, í samtali við danska ríkisfjölmiðilinn DR.

Sem stendur liggja öll kerfi niðri hjá fyrirtækinu og óljóst er hvenær þau verða aftur sett í gang. Clerc kveðst óttast að vírusinn geti dreift úr sér ef tölvukerfin eru sett of snemma aftur í gang. Ekki urðu þó allar deildir fyrirtækisins fyrir áhrifum árásarinnar að sögn Clerc en Mænsk er hluti af stærri heild sem fellur undir A.P. Moller Group.

„Við erum mjög varkár, og við höfum ekki öll smáatriði í einhverri tímaáætlun varðandi það hvenær við förum í gang að nýju,“ segir Clerc. Tölvuárásin hefur meðal annars gert það að verkum að starfsemi liggur niðri í fjölda flutn­inga­stöðva fyrirtækisins víða um heim.

„Við getum ekki sagt starfsfólki flutningsstöðvanna hvaða gáma það eigi að taka, koma með að krananum og koma fyrir í skipunum,“ segir Clerc. Ekki hafa þó fengist upplýsingar frá fyrirtækinu um það hversu margar af þeim 76 flutningsstöðvum sem fyrirtækið rekur um heiminn tölvuárásin hefur áhrif á.

Tekur Clerc þó fram að það var fyrirtækið sjálft sem slökkti tölvukerfum á starfstöðvum sínum á meðan tæknideild fyrirtækisins vinnur að því að fara yfir öll kerfi til að komast að því hversu umfangsmikið smit er að ræða.

„Sem stendur höfum við ekki nákvæman lista yfir kerfin sem sýktust. Það er þess vegna sem við tókum ákvörðun um að loka öllu saman til að koma í veg fyrir frekari vandamál,“ segir Clerc. Óljóst sé að svo stöddu hversu langan tíma mun taka að greina vandamálið og hvenær eðlileg starfsemi getur hafist að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka