Taka stefnu Obama fram yfir Trump

Michael Bloomberg og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Michael Bloomberg og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Borgarstjórar fleiri en 7.400 borga víðsvegar í heiminum hafa heitið því að grípa til aukinna aðgerða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í ljósi þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu svokallaða.

Fulltrúar borgaryfirvalda frá Bandaríkjunum, Evrópu og víðar komu saman í Brussel og sammæltust um að vinna saman að því að ná þeim markmiðum sem Barack Obama, forveri Trump, skuldbatt Bandaríkin til að ná fyrir tveimur árum síðan.

Kassim Reed, borgarstjóri Atlanta, sagði blaðamönnum að hann hefði ferðast til Evrópu til að „senda þau skilaboð“ að ríki Bandaríkjanna og borgir myndu framfylgja þeirri stefnu sem Obama hefði markað, óháð afstöðu núverandi húsráðanda Hvíta hússins.

Reed ferðaðist til Brussel eftir fund með bandarískum kollegum sínum en þar undirrituðu 300 borgarstjórar viljayfirlýsingu um að standa við Parísarsamkomulagið.

Borgarstjóri Atlanta er meðal þeirra sem hyggjast hunsa stefnubreytingu Trump.
Borgarstjóri Atlanta er meðal þeirra sem hyggjast hunsa stefnubreytingu Trump. AFP

Global Covenant of Mayors for Climate & Energy telur 7.451 borgarstjóra en í umræddum borgum búa 674 milljónir manna, sem samsvarar 9,3% íbúa heims. Stjórnarformenn samtakanna eru Maros Sefcovic, sem fer fyrir orkumálum hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og Michael Bloomberg, athafnamaður og fyrrverandi borgarstjóri New York.

Sefcovic hefur varað stjórnvöld í Washington við því að Evrópa sé ekki reiðubúin til þess að endursemja um skilmála Parísarsamkomulagsins og muni fara framhjá Hvíta húsinu ef það reynist nauðsynlegt.

„Við vinnum mjög náið með ríkjum á borð við Kaliforníu, Washington, New York og mörgum öðrum og bandalag okkar er sterkt. Við ætlum ekki að endursemja um Parísarsamkomulagið. Nú er ekki tími samningaviðræðna; nú er tími framkvæmda.“

Bloomberg ávarpaði Evrópuþingið í gær og sagði m.a.: „Það er mikilvægt að þið, og heimurinn, skilji að örlög Parísarskuldbindingar Bandaríkjanna ráðast ekki í þinginu eða Hvíta húsinu.“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert