Endanleg tala látinna óljós til áramóta

Það mun taka einhverja mánuði til viðbótar að komast að …
Það mun taka einhverja mánuði til viðbótar að komast að því hversu margir nákvæmlega létu lífið í eldsvoðanum í Grenfell-turni. AFP

Endanleg tala þeirra sem létust í eldsvoðanum í Grenfell-turni verður ekki kunn fyrr en í fyrsta lagi undir lok þessa árs að sögn lögreglu í Bretlandi. Talið er að um 80 manns hafi látið lífið en óvíst er hvort unnt verði að bera kennsl á þá alla.

Flestir þeirra sem eru látnir eru sagðir hafa orðið innlyksa í 23 af þeim 129 íbúðum sem voru í háhýsinu. Alls lagði eldsvoðinn 151 heimili í rúst, flest þeirra voru í Grenfell-turninum sjálfum en nokkur í nærliggjandi húsum. BBC greinir frá.

Fiona McCormack, yfirmaður hjá lögreglunni í London, segir ókleift að segja til um endanlegan dauðatoll eldsvoðans að svo stöddu, ekki fyrr en allri leit og rannsóknum er lokið. Það kunni að taka einhverja mánuði.

„Það sem ég get sagt er að við teljum að um 80 manns séu annað hvort látnir eða er enn saknað og því miður verðum við að gera ráð fyrir að þeir séu látnir,“ segir McCormack.

„Ég vil ekki að það séu einhver falin fórnarlömb. Við viljum öðlast skilning á raunverulegum fjölda látinna vegna þessara hörmunga,“ bætti hún við. Lögregla segir einhverja íbúa hafa reynt að færa sig lengra upp bygginguna í von um að flýja eldinn og talið er að þeir einstaklingar hafi safnast saman í eina íbúð.

Segir McCormack að fulltrúar lögreglunnar gætu þurft að búa fjölskyldur fórnarlamba undir það að hugsanlega muni líkamsleifar ættingja þeirra og vina aldrei finnast sökum þess hve gríðarleg eyðileggingin var í brunanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert