Sakfelldir fyrir morðið á Nemtsov

Zaur Dadajev skaut Boris Nemtsov til bana í Moskvu fyrir …
Zaur Dadajev skaut Boris Nemtsov til bana í Moskvu fyrir tveimur árum. AFP

Rússneskur dómstóll hefur sakfellt fimm Tsjetsjena sem voru sakaðir um að hafa orðið stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov að bana fyrir tveimur árum.

Á meðal þeirra er Zaur Dadajev sem skaut Nemtsov, sem var aðstoðarforsætisráðherra Rússlands við hlið Boris Jeltsín á tíunda áratugnum, til bana skammt frá Rauða torginu í Moskvu í 27. febrúar 2015. Nemtsov, sem var harður andstæður Vladimír Pútíns Rússlandsforseta, var aðeins 55 ára gamall.

Dadajev og fjórir aðrir samverkamenn hans voru ákærðir í málinu sem fór fyrir dómstóla. Þeir voru sakaðir um að hafa átt að fá um 250.000 dali, sem samsvarar rúmum 25 milljónum króna, fyrir að ráða Nemtsov af dögum. Þeir neituðu allir sök. Þetta kemur fram á vef BBC.

Ættingjar Nemtsov óttast að sá sem fyrirskipaði morðið muni aldrei finnast. 

Kviðdómur í Moskvu sakfelldi fimmmenningana í kjölfar réttarhalda sem stóðu yfir í átta mánuði. 

Dadajev er fyrrverandi liðsmaður sérsveitar tsjetsjenska hersins. Hinir sem voru sakfelldir eru bræðurnir Anzor og Shagid Gubasjev, Ramzan Bakhajev and Tamerlan Eskerkhanov. Sjötti maðurinn sem var handtekinn í tengslum við málið, Beslan Shabanov, lést eftir að hafa verið handtekinn í Tsjetsjníu.

Nemtsov lést er hann var að vinna að gerð skýrslu þar sem meint þátttaka Rússa í stríðsátökunum í Rússlandi var til rannsóknar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka