Sagt að nota ódýrari klæðningu

Verktökum var sagt að draga úr kostnaði með því að …
Verktökum var sagt að draga úr kostnaði með því að nota ódýrari klæðingu. AFP

Verktökum sem endurnýjuðu klæðningu á Grenfell turninum var sagt að draga úr kostnaði endurbótanna með því að nota ódýrari klæðingu en mælt hafði verið með. Það var umsjónarmaður byggingarinnar sem gerði þessi kröfu. The Times greindi fyrst frá, en aðrir breskir fjölmiðlar hafa einnig tekið málið upp.

Um 80 manns létust þegar turninn fuðraði upp í eldsvoða um miðjan júní, en talið er klæðningin hafi valdið því að eldurinn breiddist jafn hratt og raun bar vitni. 24 hæða byggingin varð alelda á mjög skömmum tíma. en haft var eftir slökkviliðsmönnum að slíkt ætti ekki að geta gerst.

Minningarveggur um fórnarlömb eldsvoðans.
Minningarveggur um fórnarlömb eldsvoðans. AFP

Verktakafyrirtækinu Artelia, sem sá um að endurnýja klæðinguna, mun hafa borist tölvupóstur frá umsjónaraðila byggingarinnar, sem hélt utan um allan rekstur fyrir yfirvöld, þar sem fram kom að sýna þyrfti fram á „góða kostnaðaráætlun“ fyrir hverfisráðið. Meðal annars var mælst til þess að notuð yrði álklæðning í stað sinkklæðningar, sem hefur meiri mótstöðu gagnvart eldi.

Þá hefur verið greint frá því að sýni sem tekin hafa verið úr klæðningum 149 háhýsa í London, hafi fallið á eldvarnarprófi.

Íbúar í Grenfell turninum hafa gagnrýnt yfirvöld harðlega vegna eldsvoðans og lélegrar upplýsingagjafar í kjölfar hans. Leiddi það meðal annars til mótmæla þar sem íbúar í hverfinu réðust inn í ráðhúsið í Chelsea og Kensington. Vilja einhverjir jafnvel meina að yfirvöld leyni heildarfjölda látinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert