Þrir fyrrverandi stjórnendur Tokyo Electric Power (Tepco), sem rak Fukushima Daiici-kjarnorkuverið, hafa verið ákærðir fyrir vanrækslu í starfi vegna kjarnorkuslyssins sem varð í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir Japan árið 2011.
Mennirnir hafna sök.
Málið var tekið fyrir í Tókýó í dag en Tsunehisa Katsumata, þáverandi stjórnarformaður Tepco, og tveir aðrir fyrrverandi framkvæmdastjórar báru því við að þeir hefðu ekki getað séð fyrir flóðbylgjuna sem sló út varakælikerfi versins og varð til þess að bráðnun átti sér stað í þremur kjarnakljúfum.
Ákæruvaldið heldur því hins vegar fram að mennirnir þrír; Katsumata, Sakae Muto og Ichiro Takekuro, hafi haft upplýsingar undir höndum um að 10 metra flóðbylgja væri á leiðinni sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Tepco er ekki ákært í málinu en mennirnir þrír eiga yfir höfði sér fimm ára fangelsi eða sekt.
Ekkert bendir til þess að fólk hafi látist vegna geislunar frá kjarnorkuverinu en mennirnir eru sagðir ábyrgir fyrir dauðsföllum 40 aldraðra sem voru fluttir þegar nálægt sjúkrahús var rýmt.
Flóðbylgjan varð 19.000 að bana á norðausturströnd Japan og fleiri en 150.000 neyddust til að flýja mögulega geislun frá kjarnorkuverinu í Fukushima. Sum hverfanna í nágrenni versins eru enn mannlaus.
Ákæruvaldið segir mennina hafa sýnt af sér vítavert gáleysi með því að slökkva ekki á kjarnakljúfunum þegar ljóst var í hvað stefndi.