Eftirlifendur munu ekki taka þátt ef rannsóknin uppfyllir ekki kröfur

Það sem eftir er af Grenfell turninum í vesturhluta Lundúna.
Það sem eftir er af Grenfell turninum í vesturhluta Lundúna. AFP

Þeir sem lifðu af eldsvoðann í Grenfell turninum í Lundúnum 14. júní síðastliðinn munu ekki taka þátt í rannsókn yfirvalda á brunanum ef að þær „kerfisvillur“ sem leiddu til brunans verða ekki rannsakaðar.

Sky News segir frá.

Yvette Williams, fulltrúi samtakanna Justice 4 Grenfell eða Réttlæti fyrir Grenfell sagði í samtali við Sky News að þeir sem urðu fyrir harmleiknum, þar sem að minnsta kosti 80 létust, væru búnir að krefjast þess að „kerfisvillurnar“ sem leiddu til brunans verði rannsakaðar.

Sagði Williams að eftirlifendurnir myndu ekki taka þátt í rannsókninni verði hún ekki ítarleg og leiði til þess að vitað verði hverjir beri ábyrgð.

„Þau geta ekki bara skoðað 14. júní, þegar að byggingin breyttist í helvíti. Þau geta ekki gert það,“ sagði Williams. „Þau verða að skoða hvernig þau komu fram við íbúana í aðdraganda eldsvoðans og þá lítilsvirðingu sem þau sýndu samfélaginu hérna. Annars breytist ekkert.“

Í kjölfar brunans sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, að hann yrði rannsakaður. Uppi eru áhyggjur um að rannsóknin muni ekki fullnægja kröfum fórnarlambanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert