Biðlar til breskra stjórnvalda um hjálp

AFP

Nazanin Zaghari-Ratcliffe, sem afplánar nú fimm ára dóm í Teheran vegna óskilgreindra brota tengdra þjóðaröryggi, er að missa hárið og er langt niðri og örvæntingarfull. Zaghari-Ratcliffe hefur dvalið mun lengur í fangelsi en fjölskylda hennar gerði ráð fyrir en hæstiréttur Írans staðfesti dóminn yfir henni í apríl sl., ári eftir að hún var handtekin.

Zaghari-Ratcliffe er með tvöfalt ríkisfang, breskt og íranskt, og eiginmaður hennar leitar nú allra leiða til að beita bresk stjórnvöld þrýstingi og hvetja þau til aðgerða. Líkamlegt ástand eiginkonu hans sé stöðugt en hún eigi það til að sökkva í þunglyndi.

Zaghari-Ratcliffe var handtekin í apríl 2016 þegar hún og tveggja ára dóttir hennar Gabriella hugðust snúa aftur til Bretlands eftir að hafa heimsótt fjölskyldu sína í Íran. Síðan hefur hún dvalið nær óslitið í Evin-fangelsinu í Teheran, aðskilin frá dóttur sinni.

Sérsveitir íranskra stjórnvalda, sem handtóku Zaghari-Ratcliffe á flugvellinum, hafa sakað hana um að hafa lagt á ráðin um valdarán en eiginmaður hennar segir sakirnar tilbúning. Fangelsun hennar sé líkega tilkomin vegna starfs hennar sem verkefnastjóri fyrir Thomson Reuters Foundation og fyrri starfa hennar fyrir BBC í Lundúnum.

Stjórnvöld í Íran eru síður en svo hrifin af breska ríkisútvarpinu en ástæðan er persnesk þjónusta miðilsins, sem milljónir Írana fylgjast með gegnum ólöglegar leiðir. Þá voru blaðamenn Reuters sendir úr landi eftir að skrifstofu þeirra í Teheran var lokað í apríl 2012.

Richard Ratcliffe segist afar óánægður með þá tilhneigingu breskra stjórnvalda að leggja áherslu á tvöfalt ríkisfang eiginkonu sinnar í stað þess að horfa á málið þeim augum að hún sé breskur ríkisborgari.

Fjölmargir einstaklingar með tvöfalt ríkisfang eru taldir dvelja í fangelsum í Íran en nákvæmur fjöldi er á reiki.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert