Ekki ákært fyrir ólöglega framleigu

Fólk er hvatt til að stíga fram ef það hefur …
Fólk er hvatt til að stíga fram ef það hefur upplýsingar um hverjir bjuggu í íbúðunum. AFP

Enginn verður ákærður fyrir að hafa framleigt íbúð sína ólöglega í Grenfell-turninum, sem fuðraði upp í eldsvoða hinn 14. júní síðastliðinn. Yfirvöld í Bretlandi hafa gefið út að það sé forgangsatriði að reyna að bera kennsl á þá sem létust í brunanum, og því sé mikilvægt að fólk sé tilbúið að gefa sig fram og segja hverjum það framleigði íbúð sína. BBC greinir frá.

Að minnsta kosti 80 manns fórust í brunanum, en búist er við að sú tala geti hækkað þegar fram líða stundir.

Yfirvöld segja það jafnframt mikilvægt á þessari stundu að styðja þá sem lifðu brunann og ástvini þeirra sem fórust. Sá stuðningur væri til lítils ef stæði til að ákæra þá sem framleigðu íbúðirnar ólöglega.

„Það er forgangsatriði rannsóknarinnar að varpa ljósi á það hverjir voru í byggingunni daginn sem hún brann og það er mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða,“ sagði saksóknarinn Alison Saunders í samtali við BBC.

Ákvörðunin er tekin í samráði við Jeremy Wright ríkissaksóknara. Hann segir að hver einasta vísbending um það hverjir voru í byggingunni, hversu lítilfjörleg sem hún er, geti hjálpað yfirvöldum við rannsóknina. Fólk er því hvatt til að gefa sig fram, hafi það einhverjar upplýsingar, þrátt fyrir að hafa framleigt með ólöglegum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert