Rannsaka mannskæða sprengingu

Að minnsta kosti 11 létu lífið þegar sprenging varð í …
Að minnsta kosti 11 létu lífið þegar sprenging varð í fataverksmiðju í Bangladess. AFP

Formleg rannsókn er hafin á sprengingu sem varð í fataverksmiðju í útjaðri borgarinnar Dhaka í Bangladess sem varð að minnsta kosti 11 manns að bana. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka því enn er þriggja saknað. Ekki er vitað hvað olli því að hitakútur sprakk með fyrrgreindum afleiðingum þegar verksmiðjan var endurræst og hluti af sex hæða byggingu hrundi. Fáir starfsmenn voru komnir til vinnu því Ramadan föstumánuði múslima var að ljúka.   

„Við hugðumst opna verksmiðjuna í dag eftir Eid-trúarhátíðina og vorum því að kanna búnaðinn í gær,“ sagði Mesba Faruqui stjórnandi aðgerða á svæðinu. Hann sagðist jafnframt ekki geta hugsað þá hugsun til enda ef sprengingin hefði orðið í dag þegar allir starfsmenn hefðu verið mættir í vinnu. 

Verksmiðjan er í eigu fyrirtækisins Multifabs sem framleiðir fatnað meðal annars fyrir verslunarkeðjurnar Littlewoods og Aldi og er í Gizpur-iðnaðarhverfinu og. Í fyrra kviknaði eldur í verksmiðju skammt frá og varð 34 starfsmönnum að bana.  

Fataiðnaðurinn í Bangladess veltir um 30 billjón dollurum og eru verksmiðjurnar um það 4.500 talsins. Af þeim hafa einungis nokkur hundruð þeirra fengið öryggisvottun. 

Í apríl flykktust þúsund­ir verka­manna í Bangla­dess í mót­mæla­göng­ur þar sem þess var minnst að fjög­ur ár eru liðin frá því að verk­smiðju­bygg­ing Rana Plaza hrundi. 1.138 létu lífið. Verka­fólkið krafðist þess að staðið verði við lof­orð um bætt­an aðbúnað og hærri laun. Þá krefst verka­fólkið rétt­læt­is til handa fórn­ar­lömb­un­um en enn hef­ur eng­inn verið dreg­inn til ábyrgðar fyr­ir dómi vegna harm­leiks­ins. 

Hrun verk­smiðjunn­ar og mann­fallið sem því fylgdi er eitt mesta slys iðnaðar­sög­unn­ar. Um 2.000 manns slösuðust.

Samkvæmt rannsókn sem alþjóðlegu góðgerðasamtökin Action-Aid gerðu á þessu ári hafa er helmingur af þeim 1.400 manns sem lifðu af vinnuslysið komin með vinnu og þriðjungur glímir enn við afleiðingar slyssins og treystir sér ekki til að vinna.  

Fjölskylda og ættingjar starfsmannanna söfnuðust saman fyrir utan sjúkrahús á …
Fjölskylda og ættingjar starfsmannanna söfnuðust saman fyrir utan sjúkrahús á svæðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert