Aðgerðahópur taki yfir mál Grenfell

Grenfell-turninn er gjörónýtur eftir brunann. Treglega gengur að finna íbúum …
Grenfell-turninn er gjörónýtur eftir brunann. Treglega gengur að finna íbúum nýtt húsnæði. AFP

Sérstakur aðgerðahópur verður skipaður og látinn taka yfir stjórn á hlutum Kensington- og Chelsea-hverfanna í kjölfar eldsvoðans í Grenfell Tower-blokkinni. Borgarráð Kensington og Chelsea hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það hvernig tekið hefur verið á málum í kjölfar eldsvoðans, sem kostaði að minnsta kosti 80 manns lífið.

Forseti borgarráðs og framkvæmdastjóri hafa báðir sagt af sér vegna málsins.

BBC segir stjórnvöld nú hafa tilkynnt að sérstakur aðgerðahópur muni taka yfir húsnæðisdeildina sem og aðra sambærilega starfsemi borgarstjórnar í hverfinu.

„Það er ekki hægt að ofmeta verkefnið fram undan,“ sagði Sajid Javid, aðalritari stjórnar borgarráða Lundúna.

Of stórt verk fyrir eina stofnun

Elizabeth Campell, sem var valin nýr forseti borgarráðs þessa borgarhluta á mánudag, fagnaði tilkynningunni.

„Umfang þessa atviks gerir það að verkum að það er ómögulegt fyrir eina stofnun að takast á við það án aðstoðar,“ sagði Campell. „Þess vegna var það mitt fyrsta verk að biðja stofnun samfélags og sveitarfélaga um aðstoð (DCLG) og það gleður mig hve hratt þeir hafa brugðist við.“

Ekki liggur enn fyrir hverjir muni skipa aðgerðahópinn, en BBC hefur eftir Norman Smith aðstoðarlögreglustjóra að það muni skýrast á næstu vikum.

Fáir hafa tekið íbúðum sem boðnar eru

Mikil spenna ríkti á fundi Lundúnalögreglu og dánardómstjóra með fórnarlömbum brunans í gær. Var fólk enn að leita upplýsinga um einstaklinga sem saknað er eftir brunann og var það ósátt við að fá þær fréttir að rannsókn og leit að fórnarlömbum kunni að standa yfir til ársloka. Þá var lögregla ítrekað spurð hvers vegna enginn hefði enn verið handtekinn vegna málsins.

Yfirvöld hafa tilkynnt að fyrir lok þessa dags eigi að vera búið að bjóða 139 fjölskyldum þeirra sem misstu heimili sitt í brunanum nýja íbúð. Íbúar hafa hins vegar enn aðeins tekið boði um 14 íbúðir. Talsmaður lagamiðstöðvar North Kensington, sem fer með mál rúmlega 100 íbúa, segir margt af því húsnæði sem fólki hafi verið boðið vera óhentugt.

Sid-Ali Atmani er einn þeirra. Hann segir húsnæðið sem fjölskyldunni hafi boðist hafa verið of lítið og of langt frá skóla dóttur sinnar.

„Þeir þurfa að fara að koma fram við okkur eins og fórnarlömb, af virðingu og á viðeigandi hátt,“ sagði Atmani í samtali við BBC. „Við erum orðin nafnlaus númer. Þetta er mjög svekkjandi [...] á þremur vikum hafa þeir ekki fundið neina lausn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert