Katar hefur svarað kröfum fjögurra ríkja á Arabíuskaganum sem saka Katar um að ógna stöðugleika í heimshlutanum með því að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum. Stjórnvöld í Katar hafa sagt kröfurnar óraunhæfar.
Utanríkisráðherrar ríkjanna fjögurra; Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Barein og Egyptalands munu hittast á fundi í dag þar sem svörin frá Katar verða rædd. Ríkin ákváðu að slíta tengslum við Katar í byrjun síðasta mánaðar og settu viðskiptaþvinganir á landið. Í kjölfarið sendu ríkin stjórnvöldum í Katar lista með þrettán kröfum sem ríkið þyrfti að uppfylla svo tengslum yrði aftur komið á.
Meðal krafna var að Katar myndi hætta stuðningi við hryðjuverkasamtök, þar á meðal Bræðralag múslima og Hamas. Þá var þess krafist að fréttastöðinni Al Jazeera yrði lokað og að dregið yrði úr tengslum við Írani. Þá kröfðust ríkin þess að stjórnvöld í Katar hættu að skipta sér af málum landanna fjögurra og að hætt verði að gefa borgurum landanna ríkisborgararétt í Katar. Var auk þess farið fram á að bygging tyrkneskrar herstöðvar í Katar yrði frestað.