Dómari í Pennsylvaniu í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að ný réttarhöld yfir leikaranum Bill Cosby hefjist 6. nóvember. Cosby er sakaður um kynferðisbrot en dómari varð að ómerkja fyrri réttarhöld eftir að kviðdómendur náðu ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu.
Lögmenn beggja aðila fengu frest til 30. október til að senda inn spurningar sem leggja á fyrir nýjan kviðdóm.
Sjö konur og fimm karlar áttu sætu í fyrri kviðdómnum en þau ræddu málið fram og aftur í 52 klukkustundir án þess að komast að niðurstöðu.
ABC-fréttastofan hefur eftir einum dómenda þess kviðdóms að tíu af tólf þeirra hafi viljað sakfella Cosby í tveimur ákæruliðum af þremur. Tveir hafi hins vegar verið mótfallnir því.
Annar sem sat í kviðdómnum sagði WPXI-sjónvarpsstöðinni hins vegar að hópurinn hefði skipst í tvennt nánast frá byrjun, án þess að greina frá því hver hefði viljað hvað.
Cosby, sem er 79 ára gamall, er sakaður um að hafa byrlað Andreu Constand ólyfjan árið 2004 og brotið gegn henni kynferðislega. Verjendur leikarans halda því hins vegar fram að þau hafi stundað samfarir með samþykki beggja aðila.