Fjórir eru sárir eftir skotárás á skemmtistaðnum Blå í Grünerløkka-hverfinu í Ósló á þriðja tímanum í nótt, þar af tveir dyraverðir á staðnum og einn starfsmaður til. Maður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn, grunaður um verknaðinn.
Það var klukkan 02:21 í nótt (00:21 að íslenskum tíma) sem lögreglunni í Ósló barst tilkynning um að hleypt hefði verið af skotum utan við skemmtistaðinn. Þegar hún kom á staðinn reyndust þar fjórir menn sárir eftir árásina og voru þeir fluttir á Ullevål-sjúkrahúsið þar sem gert er að sárum þeirra.
Að sögn vitna sást hópur manna hlaupa frá staðnum strax eftir að skothvellirnir heyrðust og hélt lögregla gestum innan dyra á skemmtistaðnum Ingensteds við hliðina á Blå til að tryggja öryggi þeirra.
Að sögn Andres Kråkenes, stjórnanda lögregluaðgerða á staðnum, er enginn þeirra, sem fyrir skotunum urðu, alvarlega slasaður en svo virðist sem kveikjan að atburðinum hafi verið að þeim sem skaut hafi verið vísað út af staðnum.
Espen Breivik, fréttamaður norska ríkisútvarpsins NRK, sem var á staðnum í nótt, segir að vegfarendum í nágrenninu hafi verið mjög brugðið við atburðinn en norska dagblaðið VG greinir aukinheldur frá því að tæknideild lögreglunnar hafi verið að störfum á staðnum þar til snemma í morgun.