Kom aftur til átaka í morgun

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, heilsaði upp á lögregluþjóna í morgun.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, heilsaði upp á lögregluþjóna í morgun. AFP

Átök brutust út snemma í morgun í Hamborg í kjölfar þess að leiðtogafundi G20-ríkja lauk þar í gær. Lögreglan greindi frá því að mótmælendur hefðu kveikt í fjölda farartækja.

Mótmælendur gengu um vopnaðir glerflöskum og kveiktu í bifreiðum. Lögreglan greindi frá því á Twitter að hún hefði sprautað vatni á mótmælendur og beitt táragasi.

Talið er að 213 lögregluþjónar hafi særst síðan á fimmtudag og 143 hafa verið handteknir. Samkvæmt frétt AFP eru ekki til nákvæmar tölur um hversu margir mótmælendur hafa særst.

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, heimsótti særða lögregluþjóna á sjúkrahús í morgun. Hann kvaðst vera í áfalli yfir skemmdarþorstanum sem mótmælendur hefðu sýnt um helgina.

„Við verðum að spyrja okkur sem lýðræðissinna hvort nokkrir ofbeldisfullir mótmælendur geti komið í veg fyrir að Þýskaland geti haldið svona fundi,“ sagði Steinmeier.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert