Yfirvöld í Katar hyggjast leita réttar síns vegna viðskiptaþvingana fjögurra ríkja á Arabíuskaganum, og fara fram á skaðabætur. Guardian greinir frá þessu.
Hafa löndin sakað Katar um að ógna stöðugleika í heimshlutanum með því að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum.
Um er að ræða Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland. Ríkin ákváðu að slíta tengslum við Katar í byrjun síðasta mánaðar og settu viðskiptaþvinganir á landið. Í kjölfarið sendu ríkin stjórnvöldum í Katar lista með þrettán kröfum sem ríkið þyrfti að uppfylla svo tengslum yrði aftur komið á.
Ali bin Fetais-al Marri, ríkissaksóknari Katar, segir að farið verði fram á skaðabætur fyrir hönd fyrirtækja í landinu sem hafi skaðast vegna viðskiptaþvingananna. Sett hefur verið saman nefnd sem mun taka á móti kröfum fyrirtækjanna.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, mun heimsækja Arabíuskaga í dag í von um að miðla málum.