Fjórar umdeildar línur í tölvupóstunum

Donald Trump yngri hefur komið föður sínum í enn meira …
Donald Trump yngri hefur komið föður sínum í enn meira klandur. AFP

Elsti son­ur Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta liggur undir þungum ásökunum eftir að hafa birt tölvupóstsamskipti sín þar sem hann þiggur boð um að hitta rússneskan lögfræðing. Lögfræðingurinn átti að hafa upplýsingar sem kæmu Hillary Clinton, mótframbjóðanda föður hans, illa í kosningabaráttunni. 

Trump yngri birti tölvupóstsamskipti sín á Twitter í gær stuttu áður en þau birt­ust á vef New York Times. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins tekur saman fjórar textalínur sem hafa vakið athygli og gætu leitt til frekari rannsókna á því hvort kosningalög hafi verið brotin. 

„Þetta eru augljóslega leynilegar og viðkvæmar upplýsingar en þær koma frá Rússlandi og lýsa stuðningi ríkisstjórnarinnar við herra Trump“

Þetta segir sá sem hafði milligöngu fyrir fundinn, Robert Goldstone, sem er breskur tónlistarútgefandi. Erfitt er að túlka setninguna öðruvísi en að ríkisstjórn Rússlands vilji koma föður hans til aðstoðar í kosningabaráttunni. 

Í fyrri málsgreinum gerir hann grein fyrir því hvað er verið að bjóða; gögn og upplýsingar um Hillary Clinton, þáverandi forsetaframbjóðanda fyrir Demókrataflokkinn.

„Ef þetta er það sem þú seg­ir elska ég það, sérstaklega seinna í sumar.“

Trump yngri virðist vita hvað hann er að koma sér út í, hann fagnar möguleikanum á því að fá í hendurnar upplýsingar sem gætu komið Clinton bak við lás og slá, og tryggt forsetakjör föður hans.

Síðustu orðin gefa til kynna að hann íhugi hvenær sé best að afhjúpa upplýsingarnar. Fundurinn átti sér stað snemma í júní en „seinna í sumar“ var kosningaherferðin komin á fullt skrið. 

„Emin óskaði eftir því að ég kæmi á fundi með þér og rússneska ríkislögmanninum sem flýgur hingað frá Moskvu á fimmtudaginn.“

Emin Agalarov er rússnesk poppstjarna og skjólstæðingur Goldstone en lögmaðurinn sem um ræðir er Natalia Veselnitskaya. Hún hefur fullyrt að hún sé ekki tengd rússnesku ríkisstjórninni þrátt fyrir að Goldstone kynnti hana sem „ríkislögmann“.

Það getur hins vegar hugsast að Goldstone hafi reynt að blekkja Trump yngri með því að gefa í skyn að hann sé að koma í kring háleynilegum fundi sem gæti kollvarpað kosningabaráttunni. 

„Til: Jared Kushner; Paul Manafort“

Efst í skjölunum koma fyrir tvö nöfn sem ættu að vekja áhyggjur Hvíta hússins; tengdasonur Bandaríkjaforseta, Jared Kushner, og Paul Manafort kosningastjóri. 

Trump yngri hafði sagt við New York Times að hann hefði beðið þá tvo um að koma á fundinn í Trump-turninn en einnig að hann hefði ekki gefið upp hvað yrði rætt. Á skjön við það sem Trump yngri hélt fram virðast báðir, Jared Kushner og Paul Manafort, hafa haft yfirsýn yfir öll samskiptin nokkrum dögum áður en fundurinn átti sér stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert