Leit að fórnarlömbum eldsvoðans í Grenfell-turni í London í júní gæti tekið fjóra mánuði til viðbótar. Talið er að um 80 manns hafi látið lífið en óvíst er hvort unnt verði að bera kennsl á þá alla.
Tólf lögreglumenn sem sérhæfa sig í því að bera kennsl á fólk eftir hamfarir vinna nú í byggingunni ásamt 24 leitarsérfræðingum og sex fornleifafræðingum. Er þeim skipt í fjóra til sex hópa sem vinna þriggja tíma vaktir.
Alistair Hutchins, varðstjóri hjá bresku lögreglunni, hefur beðið aðstandendur að sýna þolinmæði.
Að því er fram kemur í frétt Independent bjuggu 350 manns í húsinu en 14 voru ekki heima þegar eldurinn kviknaði. Yfir 250 lifðu eldsvoðann af.
Flestir þeirra sem eru látnir eru sagðir hafa orðið innlyksa í 23 af þeim 129 íbúðum sem voru í háhýsinu. Alls lagði eldsvoðinn 151 heimili í rúst, flest þeirra voru í Grenfell-turninum sjálfum en nokkur í nærliggjandi húsum.